Sekta TikTok um 1,5 milljarða

TikTok hefur notið gríðarlegra vinsælda. Fólk hefur þó haft miklar …
TikTok hefur notið gríðarlegra vinsælda. Fólk hefur þó haft miklar áhyggjur af því óviðeigandi efni sem er þar að finna og hefur verið ýtt að börnum og ungmennum. AFP

Samkeppnisyfirvöld á Ítalíu hafa ákveðið að sekta samfélagsmiðilinn TikTok um 10 milljónir evra fyrir að hafa ekki gert nóg til að vernda börn og ungmenni. Upphæðin samsvarar um einum og hálfum milljarði króna. 

Ítalska samkeppniseftirlitið segir í yfirlýsingu að forsvarsmenn TikTok hafi ekki gripið til nauðsynlegra aðgerða til að fylgjast með efni sem er birt á miðlinum, þá sérstaklega efni sem gæti ógnað velferð ungmenna og viðkvæmra einstaklinga. 

Birta óviðeigandi efni með kerfisbundnum hætti

Tekið er að fram, að slíkt óviðeigandi efni sé endurbirt notendum með kerfisbundnum hætti samkvæmt algrími TikTok sem ætlað er að stuðla að enn meiri notkun á samfélagsmiðlinum.

Sektin beinist gegn þremur deildum kínverska fyrirtækisins Bytedance group, sem á TikTok, það er að segja TikTok Technology á Írlandi, TikTok Information Technologies í Bretlandi og TikTok á Ítalíu. 

Börn og ungmenni viðkvæmur hópur

Ítalska samkeppniseftirlitið segir enn fremur að TikTok hafi ekki fylgt reglum um auglýsingar til að sýna neytendum fram á að forritið væri öruggt. 

Það segir að TikTok hafi ekki tekið tillit til þess að börn og ungmenni séu viðkvæmur hópur og sum þeirra eigi erfitt með að greina skáldskap frá raunveruleikanum. Einnig er bent á áhrif á mögulegri hjarðhegðun. 

Loks er tekið fram að TikTok eigi það til að mæla með efni sem teljist mögulega vera hættulegt eða meiðandi. 

Vísað er til keppni sem fór fram í Frakklandi sem átti rætur að rekja til efnis á TikTok, þar sem börn klipu svo fast í kinnarnar á sér að þau hlutu áverka. Þetta olli bæði starfsfólki í skólum og á heilbrigðistofnunum miklum áhyggjum. 

TikTok, sem byggir á stuttum myndskeiðum, hefur notið gríðarlegra vinsælda og þær hafa vaxið á tiltölulega stuttum tíma. Það hefur valdið vestrænum leiðtogum áhyggjum þar sem kínverskir eigendur ByteDance eru sagðir tengjast kínverska Kommúnistaflokknum. 

Í gær samþykkti fulltrúadeild Bandaríkjaþings lagafrumvarp sem neyðir TikTok til að aðskilja sig móðurfélaginu ella eiga í hættu á að verða bannað alfarið í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert