Flugvél breska hersins sem Grant Shapps, varnarmálaráðherra Bretlands, var um borð í varð fyrir GPS-truflunum eftir rafræna árás nálægt rússnesku yfirráðasvæði í gær.
Var Shapps á leið til Bretlands eftir að hafa fylgst með æfingu Atlantshafsbandalagsins í Póllandi. Urðu svo flugmenn varir við GPS-truflanir þegar flogið var nálægt Kaliningrad.
„Þetta ógnaði ekki öryggi flugvélarinnar og það er ekki óvenjulegt að flugvélar verði fyrir GPS-truflunum nálægt Kaliningrad, sem er auðvitað rússneskt yfirráðasvæði,“ sagði talsmaður ríkisstjórnarinnar við The Times.
The Times, sem var með blaðamenn um borð í vélinni, sagði að GPS-merkið hafi verið truflað í um 30 mínútur. Farsímar gátu ekki tengst internetinu og neyddust flugmenn til að nota aðrar aðferðir til að ákvarða staðsetningu sína.