Foreldrar sakfelldir vegna árásar sem sonurinn framdi

James Crumbley, faðir árásarmannsins Ethan, fylgist með kviðdóminum koma inn …
James Crumbley, faðir árásarmannsins Ethan, fylgist með kviðdóminum koma inn í salinn. AFP/Bill Pugliano

Bandarískur karlmaður á fimmtugsaldri var í gær sakfelldur fyrir manndráp af gáleysi vegna skortárásar sem sonur hans framdi í Oxford High School í nóvember árið 2021. 

Í síðasta mánuði var eiginkona hans sakfelld fyrir sömu sakir og mun dómstóll kveða upp refsinguna í apríl. Eiga þau yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsi.

Mun þetta vera fyrsta dómsmálið í Bandaríkjunum þar sem foreldrar eru sóttir til saka og sakfelldir vegna skotárásar sem barn þeirra fremur.

Útveguðu vopnið

Í réttarhöldunum kom fram að hjónin, James og Jennifer Crumbley, hefðu hunsað andleg vandamál sonar síns og útvegað honum skammbyssu sem hann beitti í árásinni í nóvember árið 2021, þá fimmtán ára að aldri.

Ethan, sonur hjónanna, myrti fjóra samnemendur sína við skólann í árásinni, þau Tate Myre, Hana St Juliana, Madisyn Baldwin og Justin Shilling. Þá særði hann sjö til viðbótar.

Ethan afplánar nú lífstíðardóm í fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert