Forsetakosningar í Rússlandi hófust í morgun og munu standa yfir um helgina. Þykir öruggt að Vladimír Pútín muni tryggja sér embættið til næstu sex ára en þrír aðrir hafa boðið sig fram á móti honum en enginn þeirra þykir eiga raunhæfa möguleika.
Kosningabásar opnuðu klukkan átta í morgun að staðartíma í Kamtsjatka, austasta héraði Rússlands, og mun síðasti básinn loka á sunnudag klukkan 20 að staðartíma í Kalíníngrad, vestasta hluta Rússlands.
Pútín hefur setið í valdastól frá aldamótunum, annaðhvort sem forseti eða forsætisráðherra.
Í desember á þessu ári tilkynnti hann svo að hann myndi gefa kost á sér í embætti forseta í fimmta skiptið.
Utanríkisráðuneyti Úkraínu skoraði í gær á ríki heims að viðurkenna ekki niðurstöður kosninganna þegar þær lægju fyrir. Í tilkynningu frá ráðuneytinu kom fram að kosningarnar væru farsi og að þær færu m.a. ólöglega fram á herteknum svæðum í Úkraínu.
BBC sagði frá því í vikunni að atkvæðagreiðsla væri hafin á hernumdu svæðunum. Fór hún fram með þeim hætti að vopnaðir hermenn gengu milli húsa ásamt starfsmanni kjörstjórnar með kjörseðla og kjörkassa.
Úkraínumenn segja þetta gert til þess að skapa ásýnd um að meirihluti íbúa á hernumdu svæðunum vilji yfirráð Rússlands og Pútíns.