Hjásvæfan víkur í máli Trumps

Nathan Wade starfaði í málinu sem saksóknari fyrir Fani Willis. …
Nathan Wade starfaði í málinu sem saksóknari fyrir Fani Willis. Hann og Willis hafa átt í rómantísku sambandi síðastliðin ár. AFP/Alyssa Pointer

Dómarinn Scott McAfee hefur hafnað beiðni Donalds Trump um að héraðssaksóknarinn Fani Willis víki úr máli sem hún sækir gegn honum í Fulton sýslu í Georgíu-ríki.

Gaf dómarinn þó Willis og fyrrverandi hjásvæfu hennar Nathan Wade, sem er einnig yfirlögfræðingur í máli hennar gegn Trump, afarkosti. Annað hvort myndi hún víkja frá málinu eða Wade.

Í kjölfar niðurstöðu dómarans sagði Nathan Wade upp störfum svo að málið gæti haldið áfram.

Fani Willis var á tímum heitt í hamsi er hún …
Fani Willis var á tímum heitt í hamsi er hún þurfti að bera vitni um samband sitt við Wade. AFP/Alyssa Pointer

Sögðu sambandið hafa byrjað fyrir ráðninguna

Trump og verjendur annarra sakborninga vildu að Willis yrði gert að stíga til hliðar og að málinu yrði vísað frá í kjölfar uppljóstrana um að hún hefði átt í ástarsambandi við Wade. Var málinu því skotið til McAfee til að úrskurða um hæfi hennar. 

Wade hafði þegar fengið greiddar tæplega 90 milljónir króna fyrir vinnu sína við málið og sagði lögfræðiteymi Trumps að hann hefði notað þá fjármuni meðal annars til að borga glæsilega siglingu fyrir Willis um karabíska hafið.

Sagði teymið að þetta rómantíska samband fæli í sér verulega hagsmunaárekstra fyrir sjálft málið og reyndi að færa rök fyrir því að samband þeirra hafi hafist áður en Willis réði Wade.

Skorti sannanir til að sanna hagsmunaárekstur

Willis og Wade viðurkenndu að þau hefðu átt í ástarsambandi en sögðu að það hefði hafist eftir að hún réði hann til að vinna í málinu í nóvember 2021.

McAfee sagði í úrskurði sínum að það skorti sannanir af hálfu teymis Trumps til að sanna beina hagsmunaárekstra. Hann sagði þó að Willis hefði sýnt fram á verulegan dómgreindarbrest í málinu.

Willis hefur beðið um að réttarhöldin yfir Trump og hinum sem ákærðir eru í málinu hefjist 5. ágúst, eða þremur mánuðum fyrir kosningarnar í nóvember, en McAfee hefur ekki enn tekið ákvörðun um upphafsdag þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert