Mike Pence, fyrrverandi varaforseti Donalds Trump, kveðst ekki ætla að styðja við framboð Trumps til forseta í komandi kosningum.
„Það ætti ekki að koma neinum á óvart að ég mun ekki veita Donald Trump stuðning minn í komandi kosningum,“ sagði Pence í viðtali við fréttaveituna Fox fyrr í kvöld.
Fjölmiðlar vestanhafs segja engu að síður að orð Pence komi á óvart, þar sem flestir framámenn í Repúblikanaflokknum hafi lýst yfir stuðningi sínum við Trump.
Pence sagði í viðtalinu að hann teldi að Trump boðaði nú stefnu, sem væri á skjön við þá íhaldsstefnu sem Trump og Pence hefðu unnið eftir á sínu kjörtímabili, og því gæti hann ekki með góðri samvisku veitt Trump stuðning sinn.
Trump reyndi að þrýsta á Pence á sínum tíma til þess að viðurkenna ekki talningu kjörmanna í forsetakosningunum 2020, þar sem Trump laut í lægra haldi fyrir Joe Biden, núverandi Bandaríkjaforseta. Pence neitaði hins vegar að verða við því, og í kjölfarið skaut Trump föstum skotum á Pence á samfélagsmiðlum.