Sprengja sprakk á kjörstað í suðurhluta Úkraínu sem Rússar hafa hernumið. Enginn lést.
Forsetakosningarnar í Rússlandi fara núna fram þar sem Vladimír Pútín forseti mun að öllum líkindum tryggja sér endurkjör.
„Í Skadovsk var sprengiefni komið fyrir í ruslatunnu fyrir framan kjörstað. Það sprakk. Enginn lést eða slasaðist,” sagði í tilkynningu frá umsjónarmönnum kosninganna í héraðinu Kerson.
Rússneskar hersveitir sögðu einnig að Úkraínumenn hefðu skotið á kjörstað í borginni Kakhovka.
Í St. Pétursborg í Rússlandi kastaði kona Molotov-kokteil á skóla sem var notaður sem kjörstaður vegna kosninganna.
Konan er á þrítugsaldri og var hún handtekin af lögreglunni. Enginn slasaðist.