Hitamet var slegið í Brasilíu í gær í borginni Rio de Janeiro, en hitabylgja gengur nú yfir landið. Hitametið nær til þess hita sem fólk upplifir vegna hás loftraka, en út frá þeim skala virkaði hitinn eins og 62,3°C.
Hitastig er bæði hægt að mæla sem lofthita líkt og við þekkjum alla jafna á hita- eða kuldatölum hér á landi og víðar. Þegar kalt er í veðri og hvasst er þó stundum talað um vindkælingu og er þá mælt hvert kuldastigið er sem fólk upplifir.
Það sama er hægt að gera þegar mikill hiti er, en þegar loftraki er mikill upplifir fólk talsvert hærra hitastig en lofthitinn í raun er.
Í gærmorgun um klukkan 9.55 að staðartíma mældist lofthitinn í Rio de Janeiro 42°C, en vegna loftraka virkaði það eins og 62,3°C og er það hæsta slíka hitamælingin sem mælst hefur þar í landi í um áratug síðan slíkar mælingar hófust. Fyrra metið var 59,7°C.
Íbúar í borginni fjölmenntu á Ipanema og Copacabana-strandirnar sem borgin er þekkt fyrir til að reyna að kæla sig.
Á sama tíma og hitametið féll í Rio de Janeiro skapaði úrhellisrigning mikil vandamál í suðurhluta landsins. Óttast veðurfræðingar að kuldabakki geti svo dregið að enn frekara úrhelli og stormaveður á komandi dögum.