Farþegi í flugi Alaska Airlines minnist þess að hafa haldið sér í eins og lífið lægi við, þegar gat kom á farþegarými flugvélarinnar er hún var í flugi.
Hann er einn farþega sem hafa höfðað mál gegn Boeing, Alaska Airlines og Spirit AeroSystems fyrir að hafa valdið sér líkamlegum og andlegum skaða.
Maðurinn, Cuong Tran, segir í samtali við breska ríkisútvarpið að öryggisbeltið hafi bjargað lífi hans.
Sími hans, sokkar og skór soguðust út um gatið samstundis. Vélin var í 16 þúsund feta hæð er hluti ytra byrðis vélarinnar féll úr henni.
Í bráðabirgðarannsókn á slysinu komust bandarískir eftirlitsaðilar að því að það vantaði fjóra skrúfbolta í vélina, sem áttu að halda hurðinni á sínum stað.
177 farþegar auk áhafnar voru um borð þegar atvikið varð.
Tran segir að þegar gatið hafi opnast hafi líkami hans hafist á loft, en allur neðri likaminn sogast niður er þrýstingur í vélinni féll.
Þá segir hann hafa liðið um 10 til 20 sekúndur þangað til að þrýstingurinn jafnaðist út.
„Þetta var líklega í fyrsta skipti á ævinni sem ég hafði þá tilfinningu að ég hefði enga stjórn á neinu. Ég var ekki að trúa þessu," segir Tran.
Flugvélinni tókst að nauðlenda á alþjóðaflugvellinum í Portland um 30 mínútum eftir að gatið opnaðist.
„Ég var ekki með síma svo ég hafði ekki hugmynd um tímann, ég sat þarna og starði á gatið allan tímann og vonaðist til þess að vélin myndi ekki skemmast meira.“
Tran er meðal sjö farþega sem hafa höfðað mál gegn Boeing, Alaska Airlines og Spirit AeroSystems.
Farþegarnir halda því fram að atburðurinn hafi valdið þeim líkamlegum áverkum og „alvarlegri tilfinningalegri vanlíðan, ótta og kvíða“.