Ferðamenn á Íslandi: „Er þetta í alvöru að gerast?“

Fjölskyldan var úti að borða þegar himinninn lýstist upp.
Fjölskyldan var úti að borða þegar himinninn lýstist upp. Skjáskot/ABC 13

Fjölskylda frá Haywood-sýslu í Norður-Karólínu lýsir í bandarískum fjölmiðli ógnvekjandi upplifun sinni af Íslandi en þau voru við Bláa lónið þegar eldgos hófst á laugardaginn.

Fjölskyldufaðirinn Tom Roberts hafði alltaf viljað fara til Alaska til að sjá norðurljós en fjölskyldan ákvað þess í stað að fara til Íslands að sjá norðurljósin.

„Það er alveg jafn gott að fara til Íslands að skoða norðurljósin,“ sagði Roberts í samtali við fréttamann ABC 13.

Á laugardagskvöld var fjölskyldan úti að borða á veitingastaðnum á Bláa lóninu þegar himinninn lýstist upp. Hann lýstist þó ekki upp vegna grænna norðurljósa, heldur vegna eldgoss.

Starfsmenn Bláa lónsins rólegir

„Við sátum þarna eflaust í 5-10 sekúndur og litum í kringum okkur: „Er þetta í alvöru að gerast núna?“

Svo þegar við áttuðum okkur á því að þetta væri raunverulega að gerast þá varð það ljóst að við þurftum að fara. Við þurftum að fara út,“ segir Shaun Sandefur er hann lýsir upplifuninni.

Sandefur og kærasta hans, Kelly Reece, voru hluti af hópnum.

„Það var súrrealískt að ganga út af veitingastaðnum og sjá himininn rauðan. Þegar við vorum fyrir utan heyrðum við í drunum eldgossins. Þetta hljómaði næstum eins og hafið, en bara miklu meira ógnvekjandi,“ sagði Sandefur.

Reece segir að þetta hafi verið óhugnanlegt en að starfsmenn Bláa lónsins hafi verið rólegir. Sandefur segir upplifunina hafa verið einstaka og að líklega muni ekkert koma til með að toppa þessa upplifun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert