Alþjóðasamfélagið fordæmir hryðjuverkaárás Ríkis íslams á Crocus City-tónleikahöllina í útjaðri Moskvu í Rússlandi í kvöld.
Að minnsta kosti 40 hafa látið lífið en líklegt að sú tala eigi eftir að hækka.
Heilbrigðisráðherra Rússlands, Mikhaíl Múrashkó, segir að 115 manns hafi verið fluttir á spítala, þar á meðal fimm börn.
Eitt barnanna er í lífshættu. Af 110 follorðnum sjúklingum eru 60 taldir vera alvarlega særðir.
Hryðjuverkamenn klæddir felulitum hófu skothríð á tónleikum rússnesku rokksveitarinnar Piknikí.
Þeir köstuðu þar einnig handsprengju eða eldsprengju en slökkviliði hefur tekist að ná tökum á eldinum.
Meðal þeirra sem hafa fordæmt árásina eru Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Emmanuel Macron Frakklandsforseti, Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, og Júlía Navalnaja, ekkja rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalnís, svo aðeins fá séu nefnd.
Fyrr í þessum mánuði varaði bandaríska sendiráðið í Rússlandi við því að öfgahópar væru að skipuleggja að ráðast á stórar samkomur í Moskvu, þar á meðal á tónleika.
Rússneska leyniþjónustan (FSB) sagði þó að starfsmenn leyniþjónustunnar hefðu komið í veg fyrir hugsanlega hryðjuverkaárás Ríki íslams á samkunduhús gyðinga í Moskvu
Menningarmálaráðuneyti Rússlands hefur aflýst öllum stórum viðburðum sem áttu að vera í Rússlandi um helgina vegna árásarinnar.