Fleiri lík finnast undir rústum hallarinnar

Slökkviliðsmenn leita í rústum tónleikahallarinnar.
Slökkviliðsmenn leita í rústum tónleikahallarinnar. AFP/Neyðarþjónusta Rússlands

Tala látinna heldur áfram að hækka í kjölfar hryðjuverkaárásar Ríkis íslams á Crocus City-tónleikahöllina í Moskvu í Rússlandi í gærkvöldi. Minnst 115 eru látnir.

„Viðbragðsaðilar hafa fundið fleiri lík undir rústunum,“ segir í yfirlýsingu rannsóknarnefndar á vegum rússneska ríkisins.

Leit verður haldið áfram í nokkra daga í rústum tónleikahallarinnar að sögn héraðsstjóra Moskvu, Andrey Vorobyov. Talið er að fjöldi látinna muni hækka verulega.

Íbúar Moskvu gefa blóð til særðra

Þá eru 140 særðir á sjúkrahúsum og 16 þeirra í lífshættu, þar á meðal eitt barn.

Íbúar víða í borginni bíða nú í röðum fyrir utan sjúkrastofnanir eftir því að gefa blóð til þeirra sem særðir eru.

Ellefu manns hafa verið handteknir í tengslum við árásina, þar á meðal fjórir sem sagðir eru hafa framið hana.

Íbúar Moskvu bíða í röð til að gefa blóð.
Íbúar Moskvu bíða í röð til að gefa blóð. AFP/Denis Voronin

Hafna fullyrðingum leyniþjónustunnar

Rússneska leyniþjónustan, FSB, gaf út yfirlýsingu í morgun um að árásarmennirnir fjórir hefðu ætlað að fara yfir landamærin að Úkraínu og að þeir hefðu tengiliði þar í landi. Úkraínsk yfirvöld hafa hafnað þessum fullyrðingum og kallað þær „fráleitar“.

Talsmaður úkraínska hersins, Andriy Yusov, sagði við BBC að landamærasvæðið væri yfirfullt af hermönnum vegna stríðsins.

„Að gefa í skyn að hinir grunuðu væru á leið til Úkraínu, gæfi til kynna að þeir væru heimskir,“ sagði hann.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur enn ekki tjáð sig opinberlega um hryðjuverkaárásina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert