Að minnsta kosti 60 létust í hryðjuverkaárás Ríkis íslams á Crocus City-tónleikahöllina í útjaðri Moskvu í Rússlandi í gærkvöldi.
Hryðjuverkamenn klæddir felulitum hófu skothríð á tónleikum rússnesku rokksveitarinnar Piknikí.
Árásin er sú mannskæðasta í Rússlandi í næstum 20 ár, að því er BBC greinir frá.
Rannsóknarlögreglumenn unnu á vettvangi í nótt við að safna sönnunargögnum, þar á meðal vopnum og skotfærum sem hryðjuverkamennirnir skildu eftir.
Rússnesk stjórnvöld hafa veitt litlar upplýsingar um hryðjuverkamennina og hvar þeir eru niðurkomnir.
Vísbendingar voru um það í gærkvöldi að þeir hefðu komist undan og að lögregla væri að reyna að hafa upp á þeim, að sögn fréttaritara BBC í Rússlandi.
Að sögn heilbrigðisráðherra Rússlands, Mikhaíl Múrashkó, voru 115 manns fluttir á spítala, þar á meðal fimm börn.
Eitt barnanna er í lífshættu. Af 110 fullorðnum sjúklingum eru 60 taldir vera alvarlega særðir.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur enn ekki tjáð sig opinberlega um árásina.