Tala látinna í kjölfar hryðjuverkárásar Ríki íslams á tónleikahöllina í Crocus City í Moskvu í Rússlandi er nú komin upp 133. Ríki íslams hefur lýst því yfir að fjórir menn á þeirra vegum hafi framkvæmt árásina.
Yfirvöld í Rússlandi sögðu fyrr í dag að búið væri að handtaka 11 manns í tengslum við árásina, þar á meðal árásarmennina fjóra.
Leitaraðgerðir halda áfram í rústum hallarinnar og búast má við því að tala látinna fari hækkandi.
Ríki íslams sagði á samskiptamiðlinum Telegram í dag að árásarmennirnir fjórir hefðu verið vopnaðir hríðskotabyssum, skammbyssu, hnífum og eldsprengjum.
Sagði enn fremur að árásin væri hluti af stríði þeirra gegn löndum sem berjist gegn íslam.