Umfangsmiklar loftárásir í nótt

Frá Kænugarði í kjölfar flugskeytaárása á fimmtudag.
Frá Kænugarði í kjölfar flugskeytaárása á fimmtudag. AFP/Sergei Supinsky

Rússar gerðu umfangsmiklar loftárásir á Kænugarð, höfuðborg Úkraínu, og Lvív-hérað í nótt. Hersveitir í Póllandi eru í viðbragðsstöðu eftir að lofthelgi landsins var rofin.

Vitali Klitschko, borgarstjóri Kænugarðs, bað fólk um að yfirgefa ekki loftvarnarskýli.

Loftvarnarflautur ómuðu um alla Úkraínu í nótt vegna loftárása Rússa. Sergiy Popko, yfirmaður herstjórnar Kænugarðs, sagði að flugskeytum hefði verið skotið á höfuðborgina en ekkert benti til manntjóns eða skemmda vegna loftvarnarkerfa.

Borgarstjóri Lvív, Andriy Sadovy, sagði að um 20 flugskeytum og sjö árásardrónum hefði verið skotið á borgina.

Flugskeyti inn fyrir lofthelgi Póllands

Maksym Kozytskyi, héraðsstjóri Lvív, sagði árás hafa verið gerða á Stryi, suður af borginni Lvív, nálægt landamærum Póllands.

Rússneskt flugskeyti fór inn fyrir lofthelgi Póllands um áttaleytið í morgun að staðartíma og var þar í um 40 sekúndur. Lofthelgin hefur verið rofin nokkrum sinnum frá innrás Rússa í Úkraínu.

Yfirstjórn pólska heraflans sagði mikla umferð rússneskra flugvéla hafa orðið til þess að viðbúnaðarstig pólska hersins var aukið.

Þá gerðu Úkraínumenn flugskeytaárás á borgina Sevastopol á Krímskaga í nótt með þeim afleiðingum að einn fórst og fjórir særðust.

Rússneski herinn kveðst hafa náð úkraínska þorpinu Ivanivske vestur af Bakmút á sitt vald. Á sama tíma hafa Úkraínumenn átt í erfiðleikum með að útvega vopn fyrir hermenn sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert