Rússnesk stjórnvöld neituðu í morgun að tjá sig um fullyrðingu Ríkis íslams um að samtökin hefðu staðið á bak við mannskæðustu árás í Rússlandi í tvo áratugi.
Leit stendur yfir að líkum í rústum tónleikahússins Crocus City.
Að minnsta kosti 137 voru drepnir eftir að byssumenn ruddust inn í húsið og hófu skothríð. Að því loknum kveiktu þeir í byggingunni.
Ríki íslams hefur þó nokkrum sinnum sagst hafa staðið á bak við árásina. Þrátt fyrir það beindi Vladimír Pútín Rússlandsforseti athyglinni að mögulegum tengslum Úkraínumanna við árásina. Enginn rússneskur embættismaður hefur tjáð sig um ábyrgð Ríkis íslams á árásinni.
„Rannsóknin er enn í gangi,” sagði Dmitrí Peskov, talsmaður Kremlar, þegar hann var spurður hvers vegna Rússar hefðu ekkert minnst á Ríki íslams í tengslum við árásina.
„Núna erum við aðeins að ræða um bráðabirgðaniðurstöður,” bætti hann við.
97 manns liggja á sjúkrahúsi eftir árásina.