Segir Kishida vilja funda með Kim Jong-un

Samsett mynd af Kim Jong-un og Kishida.
Samsett mynd af Kim Jong-un og Kishida. AFP

Kim Yo-jong, systir Kims Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, segir að Fumio Kishida, forsætisráðherra Japans, hafi óskað eftir fundi með bróður hennar.

Hún segir jafnframt ólíklegt að fundurinn verði haldinn nema að stefnubreyting eigi sér stað hjá japönskum stjórnvöldum.

Samskipti á milli landanna tveggja hafa lengi verið stirð en Kishida hefur nýlega lýst yfir áhuga á að bæta þau. Norðurkóresk stjórnvöld hafa gefið í skyn að þau séu ekki mótfallin því.

Kim Yo-jong, systir einræðisherra Norður-Kóreu.
Kim Yo-jong, systir einræðisherra Norður-Kóreu. AFP

Kishida sagðist á síðasta ári vera tilbúinn til að hitta Kim „án nokkurra skilyrða” og bætti við að japönsk stjórnvöld væru tilbúin til að leysa úr öllum deilumálum, þar á meðal í tengslum við mannrán norðurkóreskra útsendara á japönskum ríkisborgurum á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

„Kishida….lét í ljós vilja sinn til að hitta forseta norðurkóreska alþýðulýðveldisins eins fljótt og auðið er,” sagði Kim Yo-jong í yfirlýsingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka