Yfirvöld í Parísarborg eru nú í óðaönn að hreinsa ána Signu fyrir Ólympíuleikana í sumar.
Um 230 húsbátaeigendur hafa nú tengt niðurfallið í eldhúsinu og á snyrtingunni við holræsakerfi borgarinnar í stað þess að hleypa því í ána.
Borgarstjórnin vill tryggja það að sundmenn og þríþrautakappar geti synt með góðu móti í Signu sem rennur í gegnum borgina. Ólympíuleikarnir munu standa frá 26. júlí til 11. ágúst.
Hluti hreinsunarátaksins snýst um að tryggja að hvorki íbúar húsbáta né veitingahúsa á árbakkanum sleppi úrgangi sínum óhindrað út í ána.
Margir húsbátaeigendur tengjast nú nýju dælukerfi sem sogar út niðurfall bátanna í sérstaka rotþró. Þaðan er svo skólpinu dælt áfram í holræsakerfi borgarinnar.
Nú eru örfáir mánuðir í það að leikarnir hefjist og hafa því margir áhyggjur af því að Signa verði nægilega hrein þegar til kastanna kemur. Síðasta sumar þurfti að fresta viðburðum í Signu þar sem gildi E.coli gerla mældist of hátt.
Brasilíski sundkappinn Ana Marcela Cunha bað Parísarborg að hugsa um annan kost ef ekki yrði hægt að synda í Signu á Ólympíuleikunum sjálfum. Hún sagði að heilsa og velferð sundmanna þyrfti alltaf að vera í fyrirrúmi.
Því var svarað til að Signa yrði tilbúin til leikanna, það er ef ekkert óveður myndi setja strik í reikninginn. Bæði Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, hafa sagst ætla að fá sér sundsprett í Signu áður en leikarnir hefjast.
Yfirvöld hafa lagt um 1,4 milljarða evra í það að bæta vatnsgæði Signu. Peningarnir hafa farið í að bæta skólphreinsikerfi og eins hefur fjármunum verið varið í að laga vatnsbúskap árinnar Marne, sem er aðal uppspretta Signu.