Engin stefnubreyting af hálfu Íslands

Erlingur Erlingsson er sérfræðingur um öryggis- og varnarmál.
Erlingur Erlingsson er sérfræðingur um öryggis- og varnarmál. Samsett mynd

Engin stefnubreyting felst í ákvörðun Íslands um að styðja við skotfærakaup Úkraínu en þó má votta fyrir aukinni ákveðni í stuðningnum undanfarna mánuði.

Úkraínumenn þurfa á auknum vörnum að halda eftir að Rússar hafa nær sexfaldað stórskotaliðsgetu sína.

Þetta segir Erlingur Erlingsson hernaðarsagnfræðingur og fyrrum starfsmaður utanríkisráðuneytisins. Í dag starfar Erlingur sem sjálfstætt starfandi sérfræðingur um varnar- og öryggismál í Bretlandi.

Hann bendir á að Íslendingar hafi áður styrkt vopnaflutninga til Afganistan og leyft skotvopnaflutning til Írak. Þá hafi Ísland einnig komið að stuðningi við kaup á loftvarnarkerfum í Úkraínu. 

Nokkra athygli vakti þegar utanríkisráðuneytið tilkynnti um tæplega 300 milljón króna stuðning við kaup á skotfærum og varnarbúnaði fyrir Úkraínu í vikunni. Samtök hernaðarandstæðinga mótmæltu áformunum.   

Umræða úr takti við raunveruleikann

„Þetta er ekki stefnubreyting því það myndi bera með sér að stjórnvöld væru að taka stefnu í einhverja aðra átt en verið hefur en svo er ekki,“ segir Erlingur. 

Hann segir þó þekkta umræðu á Íslandi að einhverjir telji Ísland vera hlutlaust land sem standi í einhverjum skilningi fyrir utan vopnuð átök. 

„En það hefur ekki verið í neinu samræmi við utanríkisstefnu landsins og veru okkar í Atlantshafsbandalaginu. Sú umræða hefur alltaf verið meira heimspekileg frekar en að vera í raunverulegum takti við stefnu stjórnvalda og hvar við höfum verið í milliríkjasamstarfi,“ segir Erlingur.

Hann segist þó sjá nokkra breytingu á því hvernig staðið sé að stuðningi við Úkraínu á undanförnum mánuðum. Bendir hann í því samhengi á þingsályktunartillögu frá Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra um langtíma stuðning við Úkraínu sem lögð var fram í þinginu nýlega. 

Stjórnvöld stigið upp í stuðningi við Úkraínu 

„Mér hefur fundist stjórnvöld stíga svolítið upp í stuðningi sínum við Úkraínu undanfarna mánuði. Þetta er ólöglegt stríð Rússa með öllum þeim stríðsglæpum sem blasa við í framgangi Rússa í hernaðinum. Við erum að sýna svolítið á borði en ekki bara í orði að við meinum eitthvað með stuðningi okkkar við alþjóðalög og alþjóðareglur. Eins virðingu fyrir því kerfi sem er grundvöllur okkar sjálfstæðis og okkar varna,“ segir Erlingur.   

Hann bendir þó á að hin ólöglega innrás Rússa hafi fært mörkin hjá sumum þjóðum Evrópu og nefnir Þýskaland sem dæmi. 

„Það var tekið mjög eftir því í aðdraganda innrásar Rússa að ríki eins og Þýskaland hefðu sniðið sinn stuðning að því að hann væri ekki beint hernaðarlegs eðlis. Þeir sendu gjarnan hjálma og annan varnarbúnað en voru gagnrýndir fyrir þetta og breyttu um stefnu mjög fljótt. Slíkar breytingar eru í raun stóra sagan í kringum þennan ólöglega hernað Rússa hvað utanríkisstefnu varðar,“ segir Erlingur.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka