Engin stefnubreyting af hálfu Íslands

Erlingur Erlingsson er sérfræðingur um öryggis- og varnarmál.
Erlingur Erlingsson er sérfræðingur um öryggis- og varnarmál. Samsett mynd

Eng­in stefnu­breyt­ing felst í ákvörðun Íslands um að styðja við skot­færa­kaup Úkraínu en þó má votta fyr­ir auk­inni ákveðni í stuðningn­um und­an­farna mánuði.

Úkraínu­menn þurfa á aukn­um vörn­um að halda eft­ir að Rúss­ar hafa nær sex­faldað stór­skota­liðsgetu sína.

Þetta seg­ir Erl­ing­ur Erl­ings­son hernaðarsagn­fræðing­ur og fyrr­um starfsmaður ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins. Í dag starfar Erl­ing­ur sem sjálf­stætt starf­andi sér­fræðing­ur um varn­ar- og ör­ygg­is­mál í Bretlandi.

Hann bend­ir á að Íslend­ing­ar hafi áður styrkt vopna­flutn­inga til Af­gan­ist­an og leyft skot­vopna­flutn­ing til Írak. Þá hafi Ísland einnig komið að stuðningi við kaup á loft­varn­ar­kerf­um í Úkraínu. 

Nokkra at­hygli vakti þegar ut­an­rík­is­ráðuneytið til­kynnti um tæp­lega 300 millj­ón króna stuðning við kaup á skot­fær­um og varn­ar­búnaði fyr­ir Úkraínu í vik­unni. Sam­tök hernaðarand­stæðinga mót­mæltu áformun­um.   

Umræða úr takti við raun­veru­leik­ann

„Þetta er ekki stefnu­breyt­ing því það myndi bera með sér að stjórn­völd væru að taka stefnu í ein­hverja aðra átt en verið hef­ur en svo er ekki,“ seg­ir Erl­ing­ur. 

Hann seg­ir þó þekkta umræðu á Íslandi að ein­hverj­ir telji Ísland vera hlut­laust land sem standi í ein­hverj­um skiln­ingi fyr­ir utan vopnuð átök. 

„En það hef­ur ekki verið í neinu sam­ræmi við ut­an­rík­is­stefnu lands­ins og veru okk­ar í Atlants­hafs­banda­lag­inu. Sú umræða hef­ur alltaf verið meira heim­speki­leg frek­ar en að vera í raun­veru­leg­um takti við stefnu stjórn­valda og hvar við höf­um verið í milli­ríkja­sam­starfi,“ seg­ir Erl­ing­ur.

Hann seg­ist þó sjá nokkra breyt­ingu á því hvernig staðið sé að stuðningi við Úkraínu á und­an­förn­um mánuðum. Bend­ir hann í því sam­hengi á þings­álykt­un­ar­til­lögu frá Bjarna Bene­dikts­syni ut­an­rík­is­ráðherra um lang­tíma stuðning við Úkraínu sem lögð var fram í þing­inu ný­lega. 

Stjórn­völd stigið upp í stuðningi við Úkraínu 

„Mér hef­ur fund­ist stjórn­völd stíga svo­lítið upp í stuðningi sín­um við Úkraínu und­an­farna mánuði. Þetta er ólög­legt stríð Rússa með öll­um þeim stríðsglæp­um sem blasa við í fram­gangi Rússa í hernaðinum. Við erum að sýna svo­lítið á borði en ekki bara í orði að við mein­um eitt­hvað með stuðningi okkk­ar við alþjóðalög og alþjóðaregl­ur. Eins virðingu fyr­ir því kerfi sem er grund­völl­ur okk­ar sjálf­stæðis og okk­ar varna,“ seg­ir Erl­ing­ur.   

Hann bend­ir þó á að hin ólög­lega inn­rás Rússa hafi fært mörk­in hjá sum­um þjóðum Evr­ópu og nefn­ir Þýska­land sem dæmi. 

„Það var tekið mjög eft­ir því í aðdrag­anda inn­rás­ar Rússa að ríki eins og Þýska­land hefðu sniðið sinn stuðning að því að hann væri ekki beint hernaðarlegs eðlis. Þeir sendu gjarn­an hjálma og ann­an varn­ar­búnað en voru gagn­rýnd­ir fyr­ir þetta og breyttu um stefnu mjög fljótt. Slík­ar breyt­ing­ar eru í raun stóra sag­an í kring­um þenn­an ólög­lega hernað Rússa hvað ut­an­rík­is­stefnu varðar,“ seg­ir Erl­ing­ur.   

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert