Viðbragðsaðilar hafa gert hlé á leit í ánni Patapsco eftir að flutningaskip rakst á brúna Francis Scott Key í bandarísku borginni Baltimore með þeim afleiðingum að brúin hrundi. Talið er að sex séu látnir.
Aðfaranótt þriðjudags fékk lögreglan í Baltimore tilkynningu um að brúin hefði hrunið að hluta.
Talið er að átta verkamenn, sem störfuðu að næturlagi við holufyllingar í brúnni, hafi fallið í ána.
Tveimur verkamönnum var bjargað úr ánni, annar var ómeiddur en hinn alvarlega slasaður.
Sex er enn saknað og eru þeir taldir af í ljósi þess hve langt er liðið frá því að brúin hrundi. Hefur nú hlé verið gert á leitinni að þeim.
Bandaríska alríkislögreglan (FBI) og aðrar stofnanir hafa lagt áherslu á að ekki hafi verið um hryðjuverk að ræða heldur einungis slys. Þá hefur jafnframt komið fram að hrun brúarinnar hafi ekkert með burðarvirki hennar að gera.
Í tilkynningu frá hafnarstjórn Baltimore segir að skipið hafi orðið aflvana skömmu áður en það skall á brúna. Fyrir vikið gat áhöfnin ekki stýrt stefnu skipsins.
Enn fremur segir að áhöfnin hafi varpað akkerinu þegar mönnum varð ljóst að skipið myndi skella á brúnni.