Hótað eftir að hún lýsti árásunum sem þjóðarmorði

Francesca Albanese, skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna um ástandið í Palestínu.
Francesca Albanese, skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna um ástandið í Palestínu. AFP

Francesca Albanese, skýrslugjafi Sameinuðu þjóðanna um ástandið í Palestínu, kveðst hafa fengið fjölda hótana í kjölfar útgáfu skýrslu þar sem hún sagði að sterkar vísbendingar væru um að Ísrael væri að fremja þjóðarmorð á Gasasvæðinu. 

Albanese fór fyrir mannréttindaráð SÞ í gær og sagði mikilvægt að aðrar þjóðir myndu láta af vopnasölu til Ísrael og að ríkið yrði beitt refsiaðgerðum.

Sagði hún að Ísrael liti á alla þjóðina á Gasa sem skotmark og hefði ítrekað sýnt áform sín um að fremja þjóðarmorð með óforskömmuðum hætti.

Segja skýrsluna útúrsnúning

Albanese gegnir stöðu sem óháður sérfræðingur SÞ um palestínsku svæðin. Var hún skipuð í stöðuna af mannréttindaráði SÞ en þess ber að geta að hún talar ekki fyrir hönd stofnunarinnar. 

Segir hún hótanirnar sem henni hafa borist í kjölfar skýrslunnar aðeins gera sig ákveðnari í að halda ótrauð áfram í starfi sínu. Hún hafi orðið fyrir aðkasti strax frá því hún var skipuð í starfið og hafi ávallt látið það sem vind um eyru þjóta.

Fulltrúar Ísrael, sem hafa verið gagnrýnir á Albanese og embætti hennar innan SÞ, fordæma skýrsluna og segja hana fáránlegan útúrsnúning á raunveruleikanum. Hafa ýmsir ísraelskir hagsmunahópar einnig kallað eftir afsögn hennar.

Efar ekki tilvist Ísraels sem ríki

Albanese hlaut einnig gagnrýni í kjölfar ályktunar sinnar um að árás Hamas 7. október hefði ekki verið knúin áfram af gyðingaandúð heldur kúgun Ísraelsmanna á Palestínumönnum. Hefur hún í kjölfarið sjálf ítrekað verið ásökuð um gyðingaandúð. 

Ítrekaði hún í dag að hún væri með skýrslum sínum ekki að draga tilvist Ísraels sem ríkis í efa, heldur færi fram á að Ísrael sem ríki hagi sér í samræmi við alþjóðalög. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert