Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, hefur varað við því að Evrópa sé nú á tímabili „fyrirstríðsára“ (e. pre-war era) og að ef Rússland vinni stríðið í Úkraínu sé enginn í Evrópu öruggur.
„Ég vil ekki hræða neinn, en stríð er ekki lengur hugtak úr fortíðinni,“ sagði Tusk við blaðamenn stærstu fjölmiðla Evrópu í dag, en BBC greinir frá.
„Þetta er raunverulegt og byrjaði fyrir rúmlega tveimur árum.“
Ummælin lét hann falla eftir aukinn þunga í árásum Rússa á Úkraínu.
Loftvarnarkerfi Úkraínumanna skaut niður 58 dróna og 26 eldflaugar í nótt. Denis Sjmíhal, forsætisráðherra Úkraínu, sagði að skemmdir hefðu verið unnar á orkuinnviðum í sex héruðum, í vestur, austur og miðri Úkraínu.
Tusk, sem var áður forseti Evrópuráðsins, sagði að Vladimír Pútín Rússlandsforseti finndi sig knúinn til þess að kenna Úkraínumönnum um hryðjuverkaárásina í Crocus City-tónleikahöllinni án neinna sönnunargagna.
Þá telur hann að Pútín hafi „augljóslega þörf fyrir að réttlæta sífellt ofbeldisfyllri árásir á borgaraleg skotmörk í Úkraínu“ með því að tengja Úkraínumenn við hryðjuverkin.
Tusk benti á að Rússar hafi skotið ofurhljóðfráum eldflaugum í dagsbirtu í fyrsta sinn fyrr í vikunni.
Tusk, sem tók við forsætisráðherrastólnum í annað sinn í lok síðasta árs, hvatti leiðtoga Evrópuríkja til þess að styrkja varnir sínar.
Sama hvort Joe Biden eða Donald Trump bera sigur úr býtum í forsetakosningum Bandaríkjanna í nóvember telur Tusk að Evrópuríki verði fýsilegri sem samstarfsríki ef þau eru sjálfbjarga hernaðarlega.
Pólland ver nú 4% af efnahagsframleiðslu sinni í varnarmál og telur Tusk að önnur Evrópuríki ættu að eyða 2% af landsframleiðslu sinni í málaflokkinn.
Samskipti Rússa og Vesturlanda hafa ekki verið stirðari frá því í kalda stríðinu, þrátt fyrir að Pútín sagði í vikunni að Moskva hygðist ekki troða illsakir við ríki Atlantshafsbandalagsins.
Pútín sagði að sú hugmynd að ríkið hans myndi ráðast á Pólland, Eystrasaltsríkin og Tékklandi væri „algjör vitleysa“.
Hann sagði þó að ef að Úkraína notaðist við F-16 herþotur frá flugvöllum annarra ríkja yrðu þau ríki að „lögmætum skotmörkum, hvar sem þau kunni að vera“.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Tusk varar við því að Evrópa sé nú á „fyrirstríðsárum“, en hann sendi leiðtogum Evrópuríkja sömu skilaboð fyrr í þessum mánuði.
Tusk greindi þó frá því að Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, hefði beðið leiðtoga ríkja Evrópusambandsins að nota ekki orðið „stríð“ í yfirlýsingum sínum á leiðtogafundi þar sem að fólk vildi ekki upplifa að því væri ógnað.
Tusk sagðist hafa svarað Sanchez að í hans hluta af Evrópu væri stríð ekki lengur fjarlægt hugtak.
Tusk sagði að næstu tvö ár Úkraínustríðsins myndu ákveða framhaldið.
„Við lifum á mestu ögurstundu frá lokum síðari heimstyrjaldarinnar.“
Það sem Tusk segir vera mesta áhyggjuefnið nú er að „bókstaflega allar sviðsmyndir séu mögulegar“.
„Ég veit að það hljómar hrikalega, sérstaklega fyrir yngri kynslóðir, en við verðum að venjast komu nýrra tíma andlega. Tímabilið fyrir stríð.“
Tusk sagði það þó jákvætt hversu mun meðvitaðri þjóðir Evrópu væri um mögulegar ógnir.
Hann minntist á að er hann var forsætisráðherra Póllands á árunum 2007 til 2014 voru Pólverjar og nokkur Eystrasaltsríki einu ríkin sem voru meðvituð um hættuna sem stafar af Rússlandi.
Í því samhengi nefndi hann aðild Svía og Finna að Atlantshafsbandalaginu sem væri til marks um aukinn skilning á hættunni.
Tusk hrósaði nokkrum leiðtogum Evrópuríkja og undirstrikaði mikilvægi samstarfs Póllands, Frakklands og Þýskalands.