Rússar fordæma árás Ísraels

Pútín Rússlandsforseti. Rússnesk stjórnvöld fordæma árásina.
Pútín Rússlandsforseti. Rússnesk stjórnvöld fordæma árásina. AFP

Rússnesk stjórnvöld fordæma árás Ísraelshers á sendiráðsbyggingu Írans í Damaskus, höfuðborg Sýrlands. Í tilkynningu stjórnvalda segir að árásin hafi verið „óásættanleg“. Ellefu eru taldir af eftir árásina.

„Við fordæmum þessa óásættanlegu árás gegn íranska sendiráðinu í Sýrlandi harðlega.“

Íranski sendiherrann var ekki á meðal þeirra særðu en háttsettur hershöfðingi írönsku byltingarvarðanna (IRGC), var drepinn í árásinni. 

Skora á Ísraelsstjórn

„Við skorum á Ísraelsstjórn að hætta hernaðaraðgerðum sem eru til þess fallnar að ögra, á landsvæði Sýrlands og í nágrannalöndum,“ sagði einnig í tilkynningu stjórnvalda. 

Ísraelsstjórn hefur ekki tjáð sig um árásina. Átök fyrir botni Miðjarðarhafs hafa færst í aukana en þetta var fimmta loftárásin í Sýrlandi á síðastliðnum átta dögum. Íranar hafa heitið hefndaraðgerðum.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, samþykkti þó nýverið að hefja viðræður um vopnahlé á Gasaströndinni. Áætlað er að þær viðræður muni eiga sér stað í borgunum Doha og Kaíró á næstu dögum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert