Eitt tólf ára gamalt barn lét lífið og tvö særðust alvarlega þegar tólf ára gamall drengur hóf skothríð á skólafélaga sína í grunnskóla í Vantaa norður af Helsinki, höfuðborg Finnlands, í morgun.
Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar í Uusimaa fyrir stundu.
Drengurinn var handtekinn í Siltamäki-hverfi í norðurhluta Helsinki skömmu eftir árásina en hann var þá enn með skotvopnið. Lögregla sagði að um um hefði verið að ræða skammbyssu sem væri i eigu náins ættingja drengsins. Byssan var skráð og eigandinn var með leyfi fyrir henni.
Lögreglan var kölluð á staðinn klukkan 9.08 að staðartíma, eða klukkan 7.08 að íslenskum tíma.
Um 800 börn stunda nám við skólann. Starfsmennirnir eru um 90 talsins. Vantaa er fjórða stærsta borg Finnlands en þar búa um 240 þúsund manns.