Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, viðurkenndi í dag að Ísraelsher hefði „óviljandi“ drepið sjö hjálparstarfsmenn í loftárás á Gasaströndinni.
Fórnarlömbin sjö unnu fyrir World Central Kitchen (WCK) sem hefur flutt matvæli til Gasa sjóleiðina frá Kýpur.
„Því miður kom upp það sorglega mál að hersveitir okkar hæfðu óviljandi saklausa borgara á Gasaströndinni í gær,“ sagði Netanjahú við blaðamenn í dag er hann yfirgaf sjúkrahús í Jerúsalem eftir að hafa gengist undir kviðslitsaðgerð.
„Þetta gerist í stríði, við munum rannsaka þetta alveg til enda [...] Við erum í sambandi við stjórnvöld og munum gera allt til þess að þetta gerist ekki aftur,“ sagði forsætisráðherrann enn fremur.
WCK fullyrðir aftur á móti að árásin hafi verið með vilja gerð á hjálparsamtökin. WCK hyggst gera hlé á aðstoð sinni á Gasaströndinni eftir „markvissa árás Ísraelsmanna“ í gær, að því er fram kom í yfirlýsingu.
Þeir sem létust voru frá Ástralíu, Póllandi, Bretlandi og Palestínu, auk þess sem einn var með bandarískan og kanadískan ríkisborgararétt. Starfsmenn samtakanna höfðu nýlokið við að afferma tvo bíla með hjálpargögnum frá Kýpur fyrir Gasasvæðið þegar árás var gerð á þá.
Stofnanir Sameinuðu þjóðanna hafa ítrekað varað við því að hungursneyð vofi yfir á norðurhluta Gasa og kalla ástandið manngerða krísu.