Íslendingar í Taívan: „Ekkert sem þú getur gert“

Brynhildur og Ivica búa í Vesturbænum í Reykjavík. Þessi mynd …
Brynhildur og Ivica búa í Vesturbænum í Reykjavík. Þessi mynd er tekin á Chiang Kai-shek torginu í Taívan. Ljósmynd/Aðsend

Brynhildur Guðmundsdóttir og maðurinn hennar Ivica Gregoric eru stödd í Taipei, höfuðborg Taívans, og upplifðu það þegar skjálfti að stærðinni 7,4 reið yfir eyjuna um miðnætti að íslenskum tíma.

Þau voru stödd á fjórtándu hæð á hóteli þegar atvikið átti sér stað. Brynhildur var að setja í sig linsurnar þegar stóri skjálftinn reið yfir um klukkan 8 að staðartíma.

„Þessi var svo stór og var svo langur að rennihurðin á baðherberginu skelltist fram og aftur, skúffur voru að opnast og lokast, gardínurnar sveifluðust á milli,“ segir Brynhildur í samtali við mbl.is og bætir við:

„Maður skilur ekki hvernig byggingar geta staðist þetta.“

Þurfti að liggja á gólfinu og rúminu

Hún segir að hreyfingin hafi verið svo mikil að ekki hafi verið hægt að standa á gólfinu. Því var ýmist legið upp í rúmi og á gólfinu.

„Maður verður voðalega vanmáttugur og lítill en þú veist að það er ekkert sem þú getur gert. Sérstaklega þegar þú ert á fjórtándu hæð því þú ert ekki að fara hlaupa niður, þú ert ekki að fara undir neitt - þá eru bara fullt af hæðum að fara koma ofan á þig. Þú getur ekkert gert,“ segir Brynhildur.

Mikið grjóthrun varð á sumum stöðum. Þrír göngumenn létust er …
Mikið grjóthrun varð á sumum stöðum. Þrír göngumenn létust er þeir krömdust undir steinum sem féllu á þá. AFP/Taichung borg

Hið minnsta sjö eru látnir og yfir 700 slasaðir eftir skjálftann. Mesta tjónið varð þó á austurströndinni í Hualien-borg og sluppu þau ágætlega í Taipei. Eftir stóra skjálftann varð þó hrina af eftirskjálftum og voru margir þeirra vel yfir fimm að stærð.

„Við vorum rosalega sjóveik, fórum í morgunmat þar sem fólk var í náttfötum og sloppum en allir rólegir,“ greinir Brynhildur frá.

Hefur upplifað annað eins

Brynhildur kveðst hafa verið í Tókýó, höfuðborg Japans, fyrir um áratug þegar skjálfti að stærðinni 8 reið yfir.

„Þetta er ekki mjög ólíkt. Sá skjálfti var lengra í burtu og dýpri. Ég myndi giska á að hann hafi verið aðeins styttri – hann var ekki yfir mínútu – og snarpari. En þessi var miklu lengri, grófari og nær,“ segir Brynhildur.

Mesta tjónið varð í Hualien-borg.
Mesta tjónið varð í Hualien-borg. AFP/CNA/Taiwan Out

Hún segir að sér hafi brugðið meira í Tókýó-skjálftanum vegna þess að það var í fyrsta sinn sem hún upplifði skjálfta af þessari stærðargráðu, auk þess sem börnin hennar voru yngri.

„En þessi var verri. Hann var nær, lengri og hann var bara rosalegur,“ segir hún og útskýrir að það sem hafi mögulega verið óþægilegast hafi verið skjálftarnir sem fylgdu eftir næsta klukkutímann.

Létu skjálftana ekki stoppa sig

Þau Brynhildur og Gregoric hafa verið í tvær nætur í Taívan og eiga eina nótt eftir. Þrátt fyrir þessa ógurlegu skjálfta í morgunsárið létu þau þá ekki koma í veg fyrir að nýta ferðina.

„Við létum ekki stoppa okkur. Við fórum í útsýnisferð í dag og keyrðum út fyrir bæinn og erum ekkert að láta þetta slá okkur út af laginu.“

Brynhildur og Ivica í útjaðri Taipei, höfuðborg Taívans.
Brynhildur og Ivica í útjaðri Taipei, höfuðborg Taívans. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert