Vilja fulla aðild hjá Sameinuðu þjóðunum

Aðildarríki öryggisráðsins eru fimmtán talsins. Fimm þeirra eiga fastafulltrúa í …
Aðildarríki öryggisráðsins eru fimmtán talsins. Fimm þeirra eiga fastafulltrúa í ráðinu og hafa neitunarvald í öllum málum sem ráðið fjallar um. AFP/Angela Weiss

Sendinefnd Palestínu hjá Sameinuðu þjóðunum ætlar að óska eftir því að landið verði viðurkennt sem fullgilt aðildarríki að stofnuninni. Palestína er nú með stöðu áheyrn­ar­rík­is hjá Sam­einuðu þjóðunum. 

Riyad Man­sour, sendi­herra Palestínu hjá Sameinuðu Þjóðunum, sagði í dag að Palestínumenn myndu sækjast eftir inngöngu, enda væri það væri eðlilegur og lagalegur réttur þeirra. Hann óskar eftir því að atkvæðagreiðsla um málið fari fram í öryggisráðinu þann 18. apríl. 

Þarf samþykki öryggisráðsins

„Það eru allir að kalla eftir tveggja ríkja lausn, hver er þá röksemdin í því að neita okkur um að gerast aðildarríki?,“ sagði Man­sour í dag.

Allar beiðnir um að gerast aðildarríki Sameinuðu þjóðanna fara fyrst í gegnum atkvæðagreiðslu í öryggisráðinu þar sem fastaríkin fimm geta beitt neitunarvaldi sínu, en þar á meðal eru Bandaríkin, helstu bandamenn Ísraelsmanna. Síðan þarf beiðnin að fara fyrir allsherjarþingið og vera samþykkt þar með tveimur þriðju atkvæða.

Árið 2011 óskaði forseti Palestínu, Mahmud Abbas, eftir því að ríkið fengi stöðu aðildarríkis. Öryggisráðið tók beiðnina ekki til umfjöllunar en árið eftir veitti allsherjarþingið Palestínu stöðu áheyrn­ar­rík­is.

Palestínsk yfirvöld hafa nú sent Antonio Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, bréf þar sem óskað er eftir því að öryggisráðið endurskoði málið.

Bandaríkin á móti aðild

Bandaríkin hafa lýst yfir andstöðu við fulla aðild Palestínu og segjast styðja sjálfstæði ríkisins en eftir samningaviðræður við Ísrael.

„Við styðjum stofnun sjálfstæðs Palestínuríkis,“ sagði Matthew Miller, talsmaður utanríkisráðuneytisins, við fréttamenn í dag en bætti við að sú vinna ætti að fara fram með beinum samningaviðræðum allra aðila sem tengjast málinu en ekki hjá Sameinuðu þjóðunum.

Hann sagði þó hvorki af né á hvort Bandaríkin myndu beita neitunarvaldi gegn beiðninni ef hún yrði lögð fram í öryggisráðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert