Danski sjóherinn sendi í gær viðvörun til skipa á Stórabelti um að hugsanlega myndu flugskeytabrot lenda í sjónum á siglingaleiðinni. Einnig voru sendar viðvaranir til flugvéla en umferð um Stórabeltisbrú var ekki stöðvuð.
Ástæða viðvörunarinnar var sú, að á heræfingu um borð í dönsku freigátunni Niels Juel, sem er í höfn í Korsør á Sjálandi rétt sunnan við Stórabeltisbrúna, var eldflaug, sem notuð er til að skjóta Harpoon-flugskeyti á loft, óvart ræst og ekki var hægt að slökkva á henni.
Sjóherinn tók fram að engin hætta væri á að flugskeytið sjálft myndi springa en það gæti farið á loft og lent í sjónum. Sérfræðingar voru kallaðir til og undir kvöld var viðvöruninni aflétt.
Á myndinni sést Niels Juel í höfn í Korsør í gær.