Biden vill lækka námslánaskuldir

Forsetinn leitar ýmissa leiða til að ná til unga fólksins.
Forsetinn leitar ýmissa leiða til að ná til unga fólksins. AFP/Mandel Ngan

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur lagt fram nýjar tillögur um hvernig draga megi úr námskuldum margra milljóna landa sinna.

Talið er að tillögurnar séu viðleitni forsetans til að ná í atkvæði meðal yngri kjósenda, sem skipta munu sköpum í úrslitum kosninganna í nóvember.

Áður hafnað af Hæstarétti

Forsetinn hafði áður lagt fram enn róttækari tillögur þess efnis að mörg hundruð milljarðar bandaríkjadala yrðu afskrifaðir vegna námslána. Þeim tillögum var hafnað af Hæstarétti Bandaríkjanna, þar sem íhaldsmenn fara með meirihluta.

Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu segir: „Ef tillögurnar verða innleiddar munu þær draga úr skuldum um 30 milljóna Bandaríkjamanna.“

Tillögurnar kveða á um að uppsafnaðir vextir um 23 milljóna lánþega verði felldir niður og að um fjórar milljónir lánþega fái skuldir sínar niðurfelldar með öllu.

Auk þess munu um tíu milljón manns fá um fimm þúsund dali, eða tæpar sjö hundruð þúsund krónur, felldar niður af námsskuldum.

„Tillögurnar veita andrými og frelsi frá þeirri tilfinningu að greiðslur af námslánum standi grunnþörfum framar, svo sem dagvöruinnkaupum og læknisaðstoð,“ sagði Miguel Cordona, menntamálaráðherra Bandaríkjanna.

Ungir kjósendur skipta Biden miklu máli

Vitað er að ungir kjósendur gegndu lykilhlutverki í sigri Biden gegn Donald Trump í kosningunum árið 2020. Nauðsynlegt er því að þeir standi að baki forsetanum í kosningunum fram undan.

Í Hæstarétt Bandaríkjanna eru þrír dómarar sem Trump skipaði í forsetatíð sinni. Þykir dómstóllinn hafa færst í íhaldsátt og er sérstaklega tekið til úrskurðar hans á síðasta ári um að réttur til þungunarrofs væri ekki algildur í öllum ríkjum Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert