Dæmdur fyrir að hluta eiginkonu sína í 224 búta

Nicholas Metson hefur verið dæmdur fyrir að myrða eiginkonu sína …
Nicholas Metson hefur verið dæmdur fyrir að myrða eiginkonu sína og hluta hana í 224 búta. Ljósmynd/SkyNews

Nicholas Metson hefur verið dæmdur fyrir morðið á eiginkonu sinni Holly Bramley í mars 2023.

Hann greiddi vini sínum tæpar níu þúsund krónur fyrir að hjálpa sér að losa sig við líkið.

Geymdi líkið í búrskápnum

Metson, sem er 28 ára, stakk eiginkonu sína minnst fjórum sinnum. Að því loknu hlutaði hann lík hennar í sundur og geymdi líkamsleifar hennar í búrskápnum í íbúð þeirra.

Saksóknari sagði að Metson væri „truflaður og villimannslegur“ og það að hafa hlutað konu sína í 224 búta væri „miklu meira en nauðsynlegt var til þess að færa líkið úr stað“.

Fram kom fyrir rétti að almennur vegfarandi hafi fyrstur orðið var við líkamsleifar Holly Bramley og taldi í fyrstu að um hræ af dýri væri að ræða.

Metson hafði fyrst sagt lögreglunni í Lincolnskíri að eiginkona hans hafi farið að heiman í nauðungarvist vegna geðveilu.

Lögreglumennirnir fundu sterka klórlykt í íbúðinni og við nánari eftirgrennslan fundu þeir blóðbletti í sængurverum og sög sem lá ofan á handklæði.

Leitaði leiða á Google

Eftir að hafa verið handtekinn fyrir grun um að hafa myrt eiginkonu sína var sími Metson skoðaður. Þar hafði hann leitað á Google: „Hvernig á að losa sig við lík,“ „hvaða bætur fæ ég ef konan mín deyr,“ og „fyrirgefur Guð morð.“

Í kjölfar morðsins sendi Metson vinum eiginkonu sinnar skilaboð af Facebook-reikningi hennar, svo þeir teldu hana enn á lífi. Eins millifærði hann fé af hennar reikningi á sinn eigin.

Á eftirlitsmyndavélum náðist myndefni af Metson þar sem hann flytur fjölda plastpoka úr íbúð sinni 25. mars á síðasta ári.

Hann var dæmdur til tæplega tuttugu ára fangelsisvistar fyrir morðið, að því er fram kemur í umfjöllun SkyNews.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert