Hljóp yfir 16.000 kílómetra

Margir muna eflaust eftir hlaupagarpinum Forrest Gump úr samnefndri kvikmynd sem hljóp Ameríku þvera og endilanga yfir þriggja ára tímabil. Ungur Breti lauk sams konar áskorun í gær eða 352 daga löngum hlaupatúr sem spannar lengd Afríku. 

Maðurinn, hinn 27 ára gamli Russ Cook frá Worthing í West-Sussex í Bretlandi, hljóp yfir landamærin í Túnis laust fyrir fjögur á íslenskum tíma í gær og lauk þar með meira en 16 þúsund kílómetra hlaupi.

Cook hefur vakið mikla athygli með uppátækinu og hefur öðlast stóran fylgjendahóp á samfélagsmiðlinum Instagram, þar sem hann gengur undir nafninu „Hardest Geezer“.

Glímdi við andlega örðugleika, drykkju og spilafíkn

„Ég er frekar þreyttur,“ sagði Cook við blaðamann BBC sem beið hans við landamærin ásamt hópi stuðningsmanna og fjölmiðla.

Í upphafi hlaupsins kvaðst Cook vonast til þess að geta litið yfir farinn veg án eftirsjár og hafa gert eitthvað gott fyrir heiminn, en hann er 27 ára gamall og kljáðist við andlega örðugleika, spilafíkn og ofdrykkju á árum áður.

Cook hefur safnað áheitum fyrir hlaupið og hefur safnað um 700 þúsund pundum eða rúmum 122 milljónum kr. fyrir góðgerðasamtök.

Cook kvaðst helst hlakka til að fá sér jarðarberja daiquiri-kokteil …
Cook kvaðst helst hlakka til að fá sér jarðarberja daiquiri-kokteil að 16 þúsund kílómetra hlaupinu loknu. AFP

Glataði öllu í vopnuðu ráni

Ekki hefur förin þó gengið áfallalaust fyrir sig og hefur Cook þurft að takast á við ýmsar áskoranir. Hann hélt í byrjun febrúar 2023 til Afríku í von um að hlaupa meira 360 maraþon á 240 dögum, án hvíldardaga.

Upphaflega voru áform hans að hefja förina í Túnis og ljúka henni í Suður-Afríku en vegna örðugleika tengdum vegabréfsáritun í Alsír ákvað hann að hefja hlaupið í Suður-Afríku og ljúka því í Túnis.

Hann hóf því langa för sína þaðan í apríl og hefur síðan hlaupið í gegnum borgir, regnskóga, fjalllendi og Sahara-eyðimörkina.

Eftir að hafa hlaupið bæði í Suður-Afríku og Namibíu á 50 dögum urðu Cook og stuðningsteymi hans fyrir fyrsta áfallinu. Þar urðu þau fyrir barðinu á vopnuðum ræningjum og glötuðu þannig vegabréfum og áritunum, fjármunum og tæknibúnaði í Angóla.

Bakverkir ollu læknum áhyggjum

Cook lét þó ekki á sig fá og hélt ótrauður áfram að hlaupa meira en maraþon á dag, en innan skamms voru líkamlegir kvillar farnir að segja til sín og neyddist Cook til að taka fyrsta hvíldardaginn á degi 45 eftir að læknar fundu blóð og prótín í þvagi hans.

Voru það aftur á móti ítrekaðir bakverkir hans sem ollu læknum mestum áhyggjum.

Á degi 200 var farið að halla verulega undan fæti og tók Cook ákvörðun um að draga úr hlaupunum hvern dag samkvæmt tilmælum lækna í Nígeríu. Varð það einnig til þess að hann tók sér tvo daga í hvíld á degi 205 og 206.

„Ég tók mér nokkra daga til að fara í skanna. Þá kom í ljós að ég var ekki með neinar beinskemmdir svo það eina í stöðunni var í raun að hætta þessum aumingjaskap, fá sterkustu verkjalyfin í boði og bara halda áfram að traðka veginn eins og uppvakningur það sem eftir var af leiðinni,“ sagði Cook í samtali við blaðamenn.

Cook ásamt stuðningsmönnum sínum sem hlupu síðasta spölinn með honum.
Cook ásamt stuðningsmönnum sínum sem hlupu síðasta spölinn með honum. AFP

Dreymdi um daiquiri-kokteil alla leiðina

Vegabréfsáritunin í Alsír háði honum á ný er hann nálgaðist landið á degi 270 og aftraði för hans um nokkra daga. En máttur samfélagsmiðla er ríkur og Cook fékk að lokum áritunina eftir að hafa biðlað til yfirvalda í myndbandi á samfélagsmiðlinum X og öðlast athygli frá sjálfum Elon Musk.

Átti hann þá einungis eftir að hlaupa í gegnum Sahara-eyðimörkina en vegna ógurlegs hita ákvað hann að hlaupa einungis á nóttunni.

Cook náði svo marki að lokum í gær þar sem hans biðu mikil fagnaðarhöld og breska pönkhljómsveitin Soft Play sem spilaði í lokahófi hlaupsins fram á rauða nótt.

Kvaðst Cook ekki getað beðið með að fá sér jarðarberja daiquiri-kokteil sem hann hafi dreymt um frá upphafi hlaupsins.

Stuðningshópurinn var fjölmennur.
Stuðningshópurinn var fjölmennur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert