Fimmtán ára fangelsi fyrir að myrða eiginkonu sína

Dómur var birtur yfir ákærða í héraðsdómi Trøndelags í morgun.
Dómur var birtur yfir ákærða í héraðsdómi Trøndelags í morgun. mbl.is/Atli Steinn

Karlmaður hefur verið dæmdur í fimmtán ára fangelsi fyrir að myrða eiginkonu sína með morfíni. Hann breytti framburði sínum í málinu margsinnis, en þrátt fyrir það hefur hann ávallt haldið fram sakleysi sínu. 

Dómurinn var kveðinn upp í héraðsdómi Þrændalaga í morgun. NRK greinir frá. 

Það var í júní á síðasta ári sem hin 73 ára May Irene Eliassen fannst látin í bænum Ørland í Noregi. Voru dánarorsök talin vera of stór skammtur af morfíni sem fannst í líkama hennar og var eiginmaður hennar ákærður fyrir morðið. 

Dómarar í málinu voru sammála um að maðurinn hefði gegn vilja May Irene gefið henni morfín og reynt þannig að eitra fyrir henni. Þetta sagði dómarinn Eirik Lereim við dómsuppkvaðninguna, en ýmislegt í gögnum málsins benti til þess að May Irene hefði ekki viljað deyja. 

Keypti morfínið fyrir vin sem þráði að deyja 

Lereim tók fram að þegar May Irene lá á sjúkrahúsi í febrúar, og morfín fannst í líkama hennar, þá hefði hún tjáð syni sínum að hún hefði ekki tekið töflurnar.

Á sama tíma sagði eiginmaðurinn að hann hefði keypt morfínið fyrir vin sem þráði að deyja. 

Þegar maðurinn var handtekinn spurði hann hvað hefði orðið um eiginkonu sína og neitaði að hafa vitað um morfínið. Fyrir dómi sagði hann síðan að hann teldi að synir hinnar látnu hefðu gefið henni það. 

Ekki endilega morð af yfirlögðu ráði 

Dómarar hafa enn ekki komist að því hvers vegna maðurinn myrti eiginkonu sína. Lereim dómari segir morðið þó ekki endilega hafa verið framið af yfirlögðu ráði heldur hefði maðurinn hugsanlega myrt eiginkonu sína vegna þess að hún hefði verið veik. 

Þrátt fyrir það er talið að maðurinn hefði byrjað að skipuleggja eitrunina í byrjun janúar 2023, eða á sama tíma og eiginkona hans fór í endurhæfingu. 

Lereim sagði May Irene þó ekki nálægt því að deyja. Í því samhengi vísaði hann til sérfræðinga sem mátu það sem svo að May Irene ætti að geta lifað í fimm til tíu ár í viðbót með sínum sjúkdómi.  

Játaði að hafa aðstoðað eiginkonu sína við sjálfsvíg 

Að endingu játaði maðurinn að hafa aðstoðað eiginkonu sína við sjálfsvíg með því að kaupa töflurnar, en hann neitar að hafa myrt hana. Til útskýringar segir hann að May Irene hafi vilja deyja eftir að hún greindist með parkinsonssjúkdóminn árið 2022. 

Hann hafi þannig keypt töflurnar í samráði við eiginkonu sína og gefið henni þær. 

„Ég sagði henni að ég vildi ekki vita hvenær hún tók töflurnar,“  sagði hann fyrir dómi. 

Það þykir þó grunsamlegt að maðurinn hafi ekki minnst á það við neyðarlínuna, þegar hann hringdi þangað kvöldið sem May Irene fannst látin, að hún hafði jafnframt verið lögð inn á spítala í febrúar vegna of stórs skammts af morfíni. 

Vegna þessa var maðurinn einnig ákærður fyrir tilraun til manndráps, en í febrúar lifði May Irene af þrátt fyrir að hafa tekið inn of stóran skammt. Þá dvaldi hún á sjúkrahúsi í nokkra daga áður en hún fékk að snúa aftur heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert