Krumlur Kremlar afhjúpast enn í Vín

Eimir enn af Rússum. Líkneski sovésks hermanns ber við himin …
Eimir enn af Rússum. Líkneski sovésks hermanns ber við himin á Schwarzenberg-torgi í Vín. Hluti borgarinnar laut áður stjórn Sovétríkjanna. AFP

Stærsta njósnahneyksli síðustu áratuga hefur nú ratað upp á yfirborðið í Vínarborg, sem þó hefur lengi verið alræmt fylgsni flugumanna og útsendara hvers konar.

Málið allt hverfist um austurrískan njósnara, Egisto Ott að nafni, sem var handtekinn í lok mars vegna gruns um að hafa tekið afrit af símum háttsettra embættismanna í innanríkisráðuneytinu og framselt viðkvæmar upplýsingar til fólks sem bendlað er við rússneskar leyniþjónustur.

Ott þessi var áður útsendari austurrískrar leyniþjónustu, sem kennd var við stjórnarskrárvörslu og hryðjuverkavarnir (Bundesamt für Verfassungsschutz und Terrorismusbekämpfung), en hún var lögð niður árið 2021. Er hann sakaður um að hafa meðal annars selt upplýsingarnar til Martins Weiss nokkurs, sem sjálfur var forðum deildarstjóri innan þessarar sömu stofnunar.

Weiss er svo talinn hafa verið á mála hjá Jan Marsalek, fyrrverandi framkvæmdastjóra þýska fjármálafyrirtækisins Wirecard, sem komst í kastljósið árið 2020 þegar fyrirtækið lýsti yfir gjaldþroti.

Var það gert eftir að endurskoðendur höfðu komist að þeirri niðurstöðu að reikningum félagsins skeikaði um sem nemur 1,9 milljörðum evra, eða um 300 milljörðum króna.

Vín­ar­borg hef­ur lengi verið al­ræmt fylgsni flugu­manna, en einna helst …
Vín­ar­borg hef­ur lengi verið al­ræmt fylgsni flugu­manna, en einna helst eft­ir lok síðari heims­styrj­ald­ar. AFP

Fáir menn eftirlýstari

Marsalek, sem einnig er Austurríkismaður, hafði þá löngum sveipað sjálfan sig mikilli dulúð og jafnvel státað af meintum tengslum við leyniþjónustur hinna ýmsu ríkja. Hann flúði í kjölfarið land og er nú talinn búa undir verndarvæng Kremlar í Moskvuborg.

Það eru fáir menn í þessum heimi sem lýst er meira eftir.

Þýska stórblaðið Der Spiegel, ásamt fleiri miðlum, greindi í síðasta mánuði ítarlega frá flótta Marsaleks og njósnaferli hans fyrir rússnesk stjórnvöld, sem nær jafnvel áratug aftur í tímann.

Handtaka Otts hefur hrundið af stað mikilli umræðu í Austurríki og henni hafa fylgt ásakanir. Græningjar, sem sitja í ríkisstjórninni í Vín ásamt Þjóðarflokknum, saka nú Frelsisflokkinn um að hafa auðveldað framgöngu rússneskra njósna í landinu.

Fyrrverandi formaður flokksins, Herbert Kickl, gegndi embætti innanríkisráðherra á árunum 2017 til 2019 og þykir bera sök á þessum misbrestum í öryggisþjónustunni.

Kallar eftir skjótri rannsókn

„Við gætum verið að horfa fram á að rússneskir útsendarar hafi laumað sér inn í öryggisþjónustur okkar,“ sagði þingflokksformaður Græningja, Sigrid Maurer, við blaðamenn á föstudag. „Þetta er mjög, mjög alvarlegt og Frelsisflokkurinn og Kickl hafa beina tengingu við þetta.“

Flokkur hennar sakar Frelsisflokkinn um að hafa beitt sér sem „framlengingu á handlegg Rússa“ í Austurríki. Frelsisflokkurinn hefur enda tekið afstöðu með Rússlandi og sett sig upp á móti efnahagsþvingunum Evrópusambandsins vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Kickl hafnar því að hann sé hliðhollur Rússum og segir flokk sinn einvörðungu standa vörð um hlutleysi Austurríkis. Flokkurinn hefur einnig hafnað öllum ásökunum um aðkomu Marsaleks.

„Egisto Ott-málið er ógn við lýðræðið og við þjóðaröryggi landsins okkar,“ sagði kanslarinn Karl Nehammer í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum. Kallar hann eftir skjótri rannsókn til að svipta hulunni af öllum þeim sem kunna að vera viðriðnir málið.

Búlgarski rannsóknarblaðamaðurinn Christo Grozev hafði búið í Vín í næstum …
Búlgarski rannsóknarblaðamaðurinn Christo Grozev hafði búið í Vín í næstum tuttugu ár. AFP

Heimilisfangið náðist

Einna mesta athygli hefur vakið sú uppljóstrun vikublaðsins Falter, að Ott er grunaður um að hafa á fölskum forsendum komist yfir heimilisfang búlgarska rannsóknarblaðamannsins Christos Grozevs, sem flestum öðrum fremur hefur varpað ljósi á ýmis ódæðisverk rússnesku ríkisstjórnarinnar.

Blaðamaður mbl.is átti fund með Grozev í Helsinki í október árið 2022. Spurður þá hvort hann óttaðist um líf sitt kvaðst hann vita að hann og blaðamenn Bell­ingcat væru á lista rúss­nesku leyniþjón­ust­unn­ar FSB, yfir fólk sem ráða ætti af dög­um.

„En þau standa frammi fyr­ir miklu stærri vanda­mál­um sem ógna til­vist þeirra,“ sagði hann og benti á að í stjórn­kerf­inu í Moskvu væri fólk frek­ar upp­tekið af starfs­ör­yggi sínu og framtíð.

En það átti eftir að breytast.

Ekki lengur öruggur í Vín

Grozev tjáði Falter í fyrra að hann hefði flúið Vínarborg af ótta við útsendara frá Kreml. „Mig grunar að það séu fleiri rússneskir útsendarar, njósnarar og handlangarar í borginni en lögregluþjónar,“ sagði hann í því viðtali, þó með votti af kaldhæðni.

Grozev hafði þá búið í Vín í næstum tuttugu ár, en heimildarmenn með tengingar við austurrísku leyniþjónustuna vöruðu hann skyndilega við því að hans væri leitað í borginni, eins og mbl.is fjallaði um í febrúar í fyrra.

Fleiri leyniþjónustur tóku einnig að vara hann við því að snúa aftur til Vínar. Og þangað hættir hann sér ekki enn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka