Vélarhlíf datt af í miðju flugi

Flugvélin var í innanlandsflugi frá Houston til Denver þegar vélarhlífin …
Flugvélin var í innanlandsflugi frá Houston til Denver þegar vélarhlífin datt af. AFP

Eftirlitsstofnun flugfélaga í Bandaríkjunum hefur hafið rannsókn eftir að vélarhlíf á Boeing 737-800-farþegaflugvél datt af í flugtaki og slóst utan í væng vélarinnar.

Samkvæmt fréttastofu BBC er flugvélin er í eigu Southwest-flugfélagsins og var á leið frá borginni Houston til Denver í Bandaríkjunum árla morguns. 135 farþegar voru um borð ásamt sex starfsmönnum.

Flugvélaframleiðandinn hefur ítrekað ratað í heimspressuna að undanförnu vegna bilana á vélum þeirra. Til að mynda brotnaði hluti af skrokk Boeing-farþegaþotu Alaska Airlines eftir flugtak í janúar. Munaði litlu að fólk sogaðist út.

Yfirfara vélina

Southwest kvaðst ætla að láta viðhaldsteymi sitt yfirfara vélina eftir að vélarhlífin datt af og staðfesti að viðhald á vélinni væri á þeirra ábyrgð. Flugfélagið bað farþega sína velvirðingar á atvikinu og ítrekaði að öryggi þeirra sem og starfsmanna væri ávallt í fyrirrúmi. 

Vélin var framleidd árið 2015, samkvæmt flugsamgöngustofu Bandaríkjanna (FAA), en 737-800-gerðin er eldri kynslóð af nýjustu 737 Max-gerðinni. Vélin þar sem hluti af skrokknum brotnaði af var af þeirri gerð.

Boeing hefur neitað að tjá sig um atvikið og vísar spurningum til Southwest. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert