Foreldrar skotmannsins fá 10-15 ár

Foreldrar drengsins, James Crumbley og Jennifer Crumbley.
Foreldrar drengsins, James Crumbley og Jennifer Crumbley. AFP/Bill Pugliano

Foreldrar sautján ára drengs, sem skaut fjóra til bana í menntaskóla í Michigan-ríki í Bandaríkjunum, hafa verið dæmdir í 10 til 15 ára fangelsi. Drengurinn var 15 ára þegar verknaðurinn var framinn.

Hin 46 ára Jennifer Crumbley og James Crumbley sem er árinu eldri, voru dæmd fyrir að hafa ekki gripið til ráðstafana vegna andlegrar heilsu sonar síns, Ethan Crumbley. Voru þau sakfelld fyrir manndráp af gáleysi vegna gjörða sonarins.

Jennifer ásamt lögmanni sínum.
Jennifer ásamt lögmanni sínum. AFP/Bill Pugliano
James Crumbley gengur inn í dómssal.
James Crumbley gengur inn í dómssal. AFP/Bill Pugliano

Hefðu getað stöðvað voðaverkin

Crumbley hóf skothríð í Oxford High School norður af Detroit í nóvember árið 2021 þar sem fjórir létust og sjö særðust alvarlega. Hefur hann hlotið lífstíðardóm fyrir voðaverkið.

Cheryl Matthews, dómari við héraðsdóm Oakland-héraðs, dæmdi foreldrana í 10 og 15 ára fangelsi að frádregnu 28 mánaða gæsluvarðhaldi sem þau hafa þegar sætt. 

„Foreldrar eiga ekki að geta lesið hugsanir. En þessi dómur fjallar ekki um slæmt uppeldi heldur endurteknar athafnir eða athafnaleysi sem hefði getað stöðvað lest sem var á leið út af teinunum.“

Keypti byssu handa syninum

Foreldrar fórnarlambanna tóku til máls fyrir dómi og sögðu hendur foreldranna ataðar blóði barna sinna. Foreldrarnir voru sakaðir um að hafa hunsað viðvörunarmerki um andleg veikindi sonarins.

Crumbley játaði fyrir dómi að eiginmaður hennar hafi keypt skammbyssu handa drengnum í snemmbúna jólagjöf. Notaði hann byssuna til þess að fremja voðaverkið en gjöfina fékk hann nokkrum dögum áður en það var framið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert