Joe Biden Bandaríkjaforseti heitir Ísrael fullum stuðningi vegna hótana klerkastjórnarinnar í Íran. Þýska flugfélagið Lufthansa hefur fellt niður flugferðir út morgundaginn til Tehran í Íran vegna ástandsins.
Alls létust sjö úr sveitum íranskra byltingarvarða þegar bygging sendiráðs Írans í Sýrlandi var jöfnuð við jörðu þann 1. apríl. Voru tveir hershöfðingjar í hópi þeirra sem létust og einn þeirra var helsti ráðgjafi hryðjuverkasamtakanna Hisbollah.
Stjórnvöld í Teheran hafa heitið því að svara fyrir árásina á sendiráðið og saka Ísraelsmenn um að bera ábyrgð á henni.
„Eins og ég sagði Netanjahú forsætisráðherra, þá er enginn vafi um skuldbindingu okkar við öryggi Ísraels gegn þessum ógnum frá Íran og undirsátum þeirra,“ sagði Biden og bætti við:
„Við munum gera allt það sem við getum til að tryggja öryggi Ísraels.“
Æðsti leiðtogi Írans, Ayatollah Ali Khamenei, varaði við því í ræðu á miðvikudag að „illri stjórn“ Ísraels „verði að refsa“ og að henni verði refsað.
Utanríkisráðherra Ísraels, Israel Katz, svaraði honum þá:
„Ef Íran gerir árás frá sínum landamærum mun Ísrael bregðast við og ráðast á Íran.“
Lufhansa hefur ákveðið að fella niður flugferðir til Tehran út morgundaginn og kveðst flugfélagið fylgjast náið með stöðu mála.
Klerkastjórnin í Íran styður við hryðjuverkasamtökin Hamas sem á í stríði við Ísrael og hafa hótanir gengið á báða bóga frá því að Hamas hleypti stríðinu af stað við Ísrael þann 7. október.