Biden heitir því að tryggja öryggi Ísraels

Joe Biden heitir Ísrael stuðningi Bandaríkjanna.
Joe Biden heitir Ísrael stuðningi Bandaríkjanna. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Joe Biden Bandaríkjaforseti heitir Ísrael fullum stuðningi vegna hótana klerkastjórnarinnar í Íran. Þýska flugfélagið Lufthansa hefur fellt niður flugferðir út morgundaginn til Tehran í Íran vegna ástandsins.

Alls lét­ust sjö úr sveit­um ír­anskra bylt­ing­ar­varða þegar bygging sendi­ráðs Írans í Sýrlandi var jöfnuð við jörðu þann 1. apríl. Voru tveir hers­höfðingj­ar í hópi þeirra sem létust og einn þeirra var helsti ráðgjafi hryðjuverkasamtakanna Hisbollah.

Stjórn­völd í Teheran hafa heitið því að svara fyr­ir árás­ina á sendi­ráðið og saka Ísraelsmenn um að bera ábyrgð á henni.

Munu gera allt til að tryggja öryggi Ísraels

„Eins og ég sagði Netanjahú forsætisráðherra, þá er enginn vafi um skuldbindingu okkar við öryggi Ísraels gegn þessum ógnum frá Íran og undirsátum þeirra,“ sagði Biden og bætti við:

„Við munum gera allt það sem við getum til að tryggja öryggi Ísraels.“

Æðsti leiðtogi Írans, Ayatollah Ali Khamenei, varaði við því í ræðu á miðvikudag að „illri stjórn“ Ísraels „verði að refsa“ og að henni verði refsað. 

Utanríkisráðherra Ísraels, Israel Katz, svaraði honum þá:

„Ef Íran gerir árás frá sínum landamærum mun Ísrael bregðast við og ráðast á Íran.“

Lufthansa fellir niður flugferðir

Lufhansa hefur ákveðið að fella niður flugferðir til Tehran út morgundaginn og kveðst flugfélagið fylgjast náið með stöðu mála.

Klerkastjórnin í Íran styður við hryðjuverkasamtökin Hamas sem á í stríði við Ísrael og hafa hótanir gengið á báða bóga frá því að Hamas hleypti stríðinu af stað við Ísrael þann 7. október.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert