Evrópusambandið hefur kynnt nýjar refsiaðgerðir gegn palestínsku hryðjuverkasamtökunum Hamas og Heilagt stríð (e. Islamic Jihad) fyrir umfangsmikið kynbundið ofbeldi og kynferðisbrot í hryðjuverkum samtakanna í Ísrael þann 7. október.
Evrópusambandið segir að hryðjuverkasamtökin hafi kerfisbundið notað kynferðisofbeldi sem vopn í stríði en hermdarverkamenn samtakanna nauðguðu, limlestu og myrtu konur og stúlkur í árásinni.
Þá kemur einnig fram að hryðjuverkasamtökin hafi af ásettu ráði reynt að ræna sérstaklega konum og börnum, en Hamas tók um 250 gísla með sér til baka á Gasa í árás sinni á Ísrael ásamt því að drepa um 1.200 manns.
Evrópusambandið mun með þessum refsiaðgerðum geta fryst eigur manna í samtökunum og sett þá í ferðabann. Þá er einnig ólöglegt að fjármagna samtökin, beint eða óbeint.
Ísraelskir landnemar á Vesturbakkanum, sem framið hafa ofbeldi gegn Palestínumönnum, voru sömuleiðis settir á svartan lista hjá Evrópusambandinu. Á Vesturbakkanum hefur ofbeldi af hálfu landnema aukist frá 7. október.