„Það bendir ekkert til þess að einhver hafi verið skotmark, en það gæti breyst,“ segir Karen Webb, lögreglustjóri í New South Wales, um stunguárásina í Westfield-verslunarmiðstöðinni í áströlsku borginni Sydney.
Árásin átti sér stað rétt fyrir klukkan 16 síðdegis að staðartíma, eða klukkan 6 í morgun að íslenskum tíma.
Webb segir að maðurinn, sem var um fertugt, hafi þegar verið kunnur lögreglunni. Hann gekk mannanna á milli, stakk níu manns og varð 6 þeirra að bana. Hann særði fleiri til, þar á meðal níu mánaða barn.
Sjónarvottar segja við ástralska miðilinn ABC að árásarmaðurinn viðrist hafa stungið fólk „af handahófi“.
ABC segir að lögreglukona hafi skotið manninn til bana er hann reyndi að stinga hana. Forsætisráðherra Ástralíu kallaði lögreglukonuna „hetju“.
Karl Bretakonungur hefur vottað áströlum samúð sína, að því er fram kom í yfirlýsingu frá Buckinghamhöll.
Frans páfi gerði slíkt hið sama og sagðist einnig vera djúpt snortinn vegna árásarinnar, samkvæmt yfirlýsingu frá Vatíkaninu.