Hernaðarráð Ísraels hætti við hugmynd um að bregðast strax við árás Írans með gagnárás, vegna símtals frá Joe Biden Bandaríkjaforseta.
New York Times hefur þetta eftir tveimur embættismönnum Ísraels.
Þeir sögðu að einstaklingar innan ríkisstjórnar Ísraels hafi stungið upp á því að bregðast við árásinni með gagnárás.
Biden hafi rætt við Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í síma á laugardagskvöldið. Eftir símtalið hafi Netanjahú slegið af borðinu hugmyndina um gagnárás.
Einnig hafi spilað inn í hversu lítill skaði hafi orðið af árásinni í raun.
Hernaðarráðið mun hittast seinna í dag til þess að ræða hvernig bregðast eigi við árás Írans.