Írönsk stjórnvöld upplýstu Bandaríkjamenn og nágrannalönd sín um hefndarárásina gegn Ísrael með þriggja sólarhringa fyrirvara, að sögn utanríkisráðherra Írans.
„Við tilkynntum [...] Hvíta húsinu með skilaboðum um að aðgerðin okkar myndi vera takmörkuð, lítil og væri ætlað að refsa Ísraelsku ríkisstjórninni,“ sagði Hossein Amir-Abdollahian, utanríkisráðherra Írans, á blaðamannafundi í dag.
Þetta hafi Íranir gert með 72 klukkustunda fyrirvara.
Íranski herinn skaut fleiri en 300 árásardrónum og flugskeytum að Ísrael í fordæmalausum árásum í nótt. 12 eru særðir, að sögn talsmanns Ísraelshers.
Ísraelsmenn segja að árásum Írana sé enn ekki lokið, þó Íranar segi svo vera. Ísralesher náði að miklu leyti að koma í veg fyrir árásina.
Árásin, sem var umfangsmikil, var hugsuð sem hefndaraðgerð vegna loftárásar sem var gerð 1. apríl á ræðismannsskrifstofu Írans í Damaskus í Sýrlandi. Íranar kenna Ísraelsmönnum um árásina.
„Við tilkynntum bræðrum okkar og vinum á svæðinu, meðal annars löndum sem hýsa bandarískar herstöðvar, að aðgerðin okkar væri aðeins til þess að refsa Ísraelsku ríkisstjórninni,“ sagði hann enn fremur.
„Við leitumst ekki eftir því að beina spjótum okkar að Bandaríkjamönnum eða bandarískum herstöðvum á svæðinu,“ bætti hann við en varaði einnig við því að Íranar gætu ráðist á bandaríska herinnviði sem væru „að verja eða styðja“ Ísrael.