Íranski herinn skaut fleiri en 300 árásardrónum og flugskeytum að Ísrael í fordæmalausum árásum í nótt. Að minnsta kosti 12 eru særðir, að sögn talsmanns Ísraelshers.
Ein af þeim sem særðist var sjö ára stúlka frá samfélagi Bedúína nærri bænum Arad.
Daniel Hagari, talsmaður hersins í Ísrael, sagði í tilkynningu að 170 drónum og 30 stýriflaugum (e. cruise missiles) hafi verið skotið að Ísrael, en engin þeirra hafi komist inn fyrir ísraelska lofthelgi.
Einnig hafi verið skotið 110 flugskeytum (e. ballistic missiles) að Ísrael en nokkur þeirra komust inn fyrir landið.
Yfirmaður hjá íranska hernum, Mohammad Bagheri, segir að öllum þeim markmiðum hafi verið náð sem ætlað hafi verið með árásinni.
Árásin hafi verið hefndaraðgerð vegna árásar Ísraelshers að sendiráði Írans í Damaskusborg í Sýrlandi 1. apríl.
„Hernaðaraðgerðin heiðarlegt loforð […] var lokið með góðum árangri í gærkvöldi og í morgun og öllum markmiðum var náð,“ sagði Bagheri ríkismiðlinum í Íran.
Hann sagði einnig að hefndarárásin hafi beinst að „greiningarmiðstöð“ og herflugvelli sem Íranir telja að F-35-þotur ísraelska hersins hafi flogið frá í árásinni 1. apríl.
Bagheri segir bæði skotmörk hafi verið eyðilögð. Ísraelshers segir þó að litlar skemmdir hafi orðið sökum hefndarárásar Írana.
Bagheri segir að hernaðaraðgerðinni sé lokið að hálfu íranska hersins. Varar hann við því að ef Ísrael ætli að svara árásinni í sömu mynt, muni viðbrögð Írana verða „mun stærri“.
Hann varar Bandaríkin einnig við því að aðstoða Ísrael gegn Íran.
„Við sendum skilaboð til Bandaríkjanna í gegnum svissneska sendiráðið, að ef þau vinna með Ísrael í næstu mögulegu aðgerðum þeirra, að þá verða stöðvar þeirra [Bandaríkjanna] ekki öruggar,“ sagði Bagheri.