Bandaríkin munu halda áfram að verja Ísrael

Joe Biden Bandaríkjaforseti og Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Joe Biden Bandaríkjaforseti og Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP/Andrew Caballero-Reynolds

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir Bandaríkin ekki vilja koma í veg fyrir stigmögnun í samskiptum sínum við Íran en leggur áherslu á að ríkið muni áfram verja Ísrael eftir árás Írans.

Aðgerðir Írans fordæmalausar

„Við leitumst ekki eftir stigmögnun, en við munum halda áfram að styðja varnir Ísraels og vernda starfsfólk okkar á svæðinu,“ sagði Blinken í dag áður en hann fundaði með Mohammed Ali Tamim, aðstoðarforsætisráðherra Íraks.

Blinken sagði árás helgarinnar hafa sýnt að Ísrael þurfi ekki og muni ekki þurfa að standa eitt þegar kemur að því að verja sig fyrir árásum. Þá bætti hann við að aðgerðir Írans væru „fordæmalausar“.

Íran sendi 300 flug­skeyti og dróna á landsvæði Ísra­els á laugardagskvöld. Var árás­in viðbragð við ólög­legri árás á ræðis­skrif­stofu Írans í Sýr­landi.

Flest skeytin voru skotin niður, með aðstoð Bandaríkjanna, Jórdaníu og annarra bandamanna, áður en þau komust til Ísrael. 

Hafa áhyggjur af frekari átökum á svæðinu

Blinken kveðst hafa tekið þátt í miklum viðræðum síðustu 36 klukkustundir til að samræma diplómatísk viðbrögð með það að markmiði að koma í veg fyrir að ástandið á svæðinu versni. 

Hann hefur einkum rætt við starfsbræður sína í Egyptalandi, Sádi-Arabíu, Jórdaníu, Tyrklandi, Bretlandi og Þýskalandi, að sögn bandaríska utanríkisráðuneytisins.

Fyrir fundinn sagði aðstoðarforsætisráðherra Írak ríkisstjórn sína hafa áhyggjur af því að svæðið gæti „dregist inn í víðtækara stríð sem muni ógna alþjóðlegu öryggi“. Þá hvatti hann alla aðila til að sýna stillingu.

Joe Biden mun funda með Mohamed Shia al-Súdani, forsætisráðherra Íraks, í Hvíta húsinu seinna í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka