Önnur stunguárás í Sydney

Svörtum borða var varpað á óperuhúsið í Sydney í kvöld …
Svörtum borða var varpað á óperuhúsið í Sydney í kvöld að staðartíma, til minningar um fórnarlömb árásarinnar þann 13. apríl. AFP

Lögreglan í Sydney kveðst hafa handtekið karlmann sem grunaður er um að hafa stungið nokkra í vesturhluta borgarinnar í kvöld að staðartíma, eða í morgun að íslenskum tíma.

Fórnarlömbin, sem viðbragðsaðilar segja fjögur talsins, eru ekki talin í lífshættu.

Aðeins nokkrir dagar eru síðan karlmaður varð þar sex að bana með hnífsstungum í verslunarmiðstöð.

Svo virðist nú sem biskup hafi verið stunginn margsinnis í miðri guðsþjónustu í kirkju, af manni sem gekk að altarinu.

Myndefni af árásinni hefur verið deilt á vefnum, en guðsþjónustan var í beinu streymi á internetinu. 

Skjáskot úr beinu streymi af guðsþjónustunni.
Skjáskot úr beinu streymi af guðsþjónustunni.

Lögregla bregst við

Biskupinn Mar Mari Emmanuel var við messuhald að kvöldi mánudags að staðartíma þegar ungur og svartklæddur maður nálgaðist hann, áður en hann svo stakk Emmanuel ítrekað í andlit og líkama.

Viðstaddir reyndu þá að skerast í leikinn, að því er sjá mátti á beina vefstreyminu.

Heyra mátti öskur sóknarbarna áður en streyminu, sem var í beinni á YouTube, var skyndilega slitið.

Árásin átti sér stað um kl. 19 að kvöldi mánudags að staðartíma, eða um kl. 9 í morgun að íslenskum tíma.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert