Styttist í refsiákvörðun í voðaskotsmáli

Hannah Gutierrez-Reed bíður nú refsiákvörðunar en myndskeið sem leit dagsins …
Hannah Gutierrez-Reed bíður nú refsiákvörðunar en myndskeið sem leit dagsins ljós við rannsókn voðaskotsmálsins gæti dregið dilk á eftir sér. AFP/Luis Sánchez Saturno

Allt að átján mánaða fang­elsis­vist bíður um­sjón­ar­manns skot­vopna og skot­færa á tökustað kvik­mynd­ar­inn­ar Rust, Hannah Gutier­rez-Reed, þar sem kvik­mynda­tökumaður­inn Halynu Hutchins beið bana 21. októ­ber 2021 þegar leik­ar­inn Alec Baldw­in hleypti af voðaskoti en sjálf­ur bíður Baldw­in rétt­ar­halda sem hefjast í júlí.

Verður dóm­ur yfir Gutier­rez-Reed kveðinn upp í dag fyr­ir rík­is­dóm­stól í New Mex­ico-ríki í Banda­ríkj­un­um en verj­end­ur henn­ar hafa sveist blóðinu við að sann­færa dóm­end­ur um hve al­var­legt glappa­skot það væri að velja skot­vopnaum­sjón­ar­mann­in­um þunga refs­ingu, Gutier­rez-Reed sé ung kona sem nú þegar losni aldrei und­an um­tali um það sem gerðist októ­ber­dag­inn ör­laga­ríka og dóm­ur fyr­ir al­var­legt af­brot (e. felony) muni hafa áhrif á alla framtíð henn­ar.

Grét stans­laust

Kari Morriss­ey, sér­stak­ur sak­sókn­ari í mál­inu, fór þess á leit við dóm­ar­ann að hann dæmdi Gutier­rez-Reed til þyngstu refs­ing­ar sem lög leyfa og byggi auk þess þannig um hnút­ana að henni yrði ókleift að sækja um refsi­lækk­un síðar meir.

Vitni við aðalmeðferð máls­ins, þar á meðal æsku­vin­ur og fyrr­ver­andi kær­asti Gutier­rez-Reed, hafa keppst við að sann­færa dóm­inn um hve niður­brot­inn sak­born­ing­ur­inn var eft­ir at­vikið og sagði æsku­vin­ur­inn í skrif­leg­um vitn­is­b­urði að ákærða hefði grátið stans­laust eft­ir voðaskotið.

Allt gæti þetta þó þotið sem vind­ur um eyru þegar kem­ur að því að kjósa skot­vopnaum­sjón­ar­mann­in­um ör­lög inn­an refsi­vörslu­kerf­is­ins vegna mynd­skeiðs frá öld­ur­húsi í Santa Fe í New Mex­ico sem kom fram í dags­ljósið við rann­sókn máls­ins en þar gerði Gutier­rez-Reed upp­töku af sjálfri sér þar sem hún sést bera skot­vopn inn fyr­ir dyr öld­ur­húss­ins, nokkuð sem er strang­lega bannað með lög­um í öll­um ríkj­um Banda­ríkj­anna.

The Guar­di­an

Hollywood Report­er

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert