Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðandi Repúblikana, mætti til þinghalds í New York í Bandaríkjunum í dag í máli sem snýr að mútugreiðslum hans.
Alvin Bragg, saksóknari á Manhattan, lagði fram ákæru gegn Trump í 34 liðum og er Trump þar sakaður um að hafa falsað reikninga og önnur viðskiptagögn í tengslum við mútugreiðslur til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels í skiptum fyrir þögn hennar um samskipti þeirra árið 2006. Átti greiðslan sér stað árið 2016, þegar kosningabarátta Trumps við Hillary Clinton stóð sem hæst.
Michael Cohen, lögmaður Trumps, greiddi Daniels 130 þúsund bandaríkjadali í október 2016, eða um 18,5 milljónir króna á núvirði. Er Trump varð forseti greiddi hann Cohen til baka í nokkrum greiðslum í gegnum fyrirtækið sitt.
Saksóknarar telja Trump hafa þannig svikið undan skatti með því að dulbúa þær sem lögfræðikostnað.
Trump er fyrsti fyrrverandi forseti Bandaríkjanna sem þarf að mæta fyrir dóm, en málið er eitt af nokkrum sem höfðuð hafa verið gegn honum eftir að hann lét af embætti forseta.
Gert er ráð fyrir að val á kviðdómi hefjist í dag, en AFP fréttaveitan segir að miðað við hversu þekkt málið er og Trump umdeildur gæti slíkt val tekið saksóknara og verjendur allt að tvær vikur, en tólf kviðdómarar sitja í kviðdómi.
Trump sagði við blaðamenn, þegar hann mætti til dómshússins, að réttarhöldin væru „árás á Ameríku“.
Þetta er ekki eina málið sem rekið er gegn Trump, en samtals eru málin fjögur. Í Flórída var hann ákærður í 40 liðum og snýr ákæran að misferli með trúnaðarskjöl Hvíta hússins. Í höfuðborginni Washington D.C. var ákæra gefin út af alríkinu og er í fjórum liðum.
Hún snýr að ólögmætum tilraunum Trumps til að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna árið 2020. Að lokum var ákæra gefin út í Georgíu í 13 liðum, en hún snýr einnig að ólögmætum tilraunum hans til að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna, en einskorðast við Georgíuríki.
Trump hefur í þremur málanna tekist að tefja málsmeðferðina, meðal annars með ítrekuðum kærum og beiðnum til dómara um að úrskurða um ýmiss atriði málanna. Í því máli sem nú er til meðferðar hefur Trump hins vegar mistekist að tefja málið fram yfir kosningar í haust, en dómarinn Juan Merchan hefur gefið í skyn að hann muni keyra málið áfram með harðri hendi.
Merchan hefur áður þurft að banna Trump að tjá sig opinberlega um dómsmálið, fyrst með því að banna honum að ráðast gegn starfsfólki réttarins, mögulegum kviðdómendum og vitnum. Eftir að Trump réðst gegn dóttur dómarans á netinu ákvað Merchan hins vegar að útvíkka bannið.
Varð úr að Merchan bannaði Trump að gagnrýna skyldmenni sín og ættingja, sem og ættmenni Braggs saksóknara. Hafa lögmenn Trumps sagt bannið brjóta gegn bandarísku stjórnarskránni, en bönn sem þessi (e. gag orders) þekkjast í bandarísku réttarfari.
Verði Trump sakfelldur í málinu gæti hann verið dæmdur til nokkurra ára fangelsis, en sérfræðingar telja það þó ólíklega niðurstöðu. Hins vegar gæti sakfelling haft ófyrirséðar afleiðingar á forsetakosningarnar sem fyrirhugaðar eru 5. nóvember.
Trump hefur gefið út að hann muni við aðalmeðferð málsins bera vitni en slíkt er nokkuð ólíklegt fyrir sakborning og jafnvel áhættusamt.