„Maður er sleginn yfir þessu eins og allir og þetta er auðvitað stórt mál hér,“ segir Árni Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Danmörku, um eldsvoðann í kauphöllinni Børsen.
Árni átti leið fram hjá brunanum um áttaleytið í morgun er hann var á leið til vinnu. Slökkvistarf var einmitt að hefjast þá og segir Árni mikinn svartan reyk hafa staðið upp í loftið.
„Svo bara ágerðust eldurinn og eldtungurnar og náðu upp í þessa frægu spíru sem stóð upp úr húsinu og féll svo eftir nokkurn tíma,“ segir Árni, sem þá var kominn upp í sendiráð en fylgdist með sjónvarpsútsendingu.
„Þessi bygging – hún er náttúrulega bæði sögufræg og einkennandi fyrir borgina, þetta fer svona svolítið inn á fólk,“ segir Árni.
Húsið var upprunalega byggt árið 1620 en viðgerðir á því hafa staðið yfir í nokkur ár. Átti viðgerðunum að vera lokið á þessu ári í tæka tíð til að fagna 400 ára afmæli þess, en húsið var fullbyggt árið 1625.
„Það virðist vera erfitt að ná tökum á eldinum því nú er þakið að hluta til fallið,“ segir Árni og segir því koma til greina að húsið brenni til kaldra kola.
Þetta minnir kannski eilítið á Notre Dame-eldsvoðann á dönskum skala?
„Já, og það er kannski merkilegt að það var líka um miðjan apríl, 15. apríl, og svo gerist þetta 16. apríl,“ segir Árni.
Þá bendir hann einnig á að danskir fjölmiðlar hafi fjallað um að í dag sé fyrsti afmælisdagur Margrétar Þórhildar, síðan hún lét af völdum sem Danadrottning og sonur hennar Friðrik var krýndur konungur.
Aðspurður segir hann fátt annað koma til greina að sínu mati en að huga að endurbyggingu hússins.
„Þetta er bara sögufrægt hús. Það er engin umræða farin í gang um það en mér finnst eiginlega óhugsandi annað en að gera við eins og hægt er.“