Danir í áfalli yfir brunanum

Byggingin stendur í ljósum logum.
Byggingin stendur í ljósum logum. Ljósmynd/Björgvin Finnsson

Björgvin Finnsson, íslenskur maður búsettur í Kaupmannahöfn, segir fólk á svæðinu vera miður sín yfir brunanum í kaup­höll­inni Bør­sen. Byggingin er ein elsta bygging borgarinnar og var byggð árið 1625. Eldsvoðinn hefur breiðst mikið út og ljóst er að um mikið tjón er að ræða.

Slökkviliðsmenn að störfum á vettvangi.
Slökkviliðsmenn að störfum á vettvangi. AFP

Mikið tilfinningamál

Björgvin hjólaði fram hjá brunanum á leið til vinnu í morgun og segir málið hræðilegt. 

„Hér er fólk bara í tárum. Þetta er greinilega mjög mikið tilfinningamál,“ segir Björgvin.

Sjálfur hefur hann búið í Kaupmannahöfn í 20 ár og sá bæði á viðbrögðum fólks í fréttum og á samstarfsfélögum sínum að Danir eru miður sín yfir þessu.  

Björgvin er með rekstur í Magasin-verslunarhúsinu rétt hjá Bør­sen. Þar er allt galtómt segir hann en lögreglan hefur lokað stóru svæði umhverfis bygginguna.

Danski fáninn sést hér ofan á fjármálaráðuneytinu í Kaupmannahöfn og …
Danski fáninn sést hér ofan á fjármálaráðuneytinu í Kaupmannahöfn og reykur allt um kring. AFP

Reyna nú að bjarga verðmætum

Hann segir mikið eldhaf búið að vera í tvo tíma í byggingunni og slökkvistarf reynst erfitt. Nú er verið að reyna að bjarga verðmætum úr byggingunni eins og hægt er. 

„Svo datt turninn allt í einu og þá fór fólk bara að gráta.“

Björgvin var á leið til vinnu í morgun þegar hann …
Björgvin var á leið til vinnu í morgun þegar hann hjólaði fram hjá brunanum. Ljósmynd/Björgvin Finnsson

Viðgerðir á byggingunni hafa staðið yfir í nokkurn tíma segir Björgvin og bætir við að mikið hafi verið um vinnupalla og plast í kring. Honum finnst líklegast að einhver logi hafi komist í þetta og allt farið í gang í kjölfarið. 

Eldsupptök eru ókunn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert