Guðjón Friðriksson sagnfræðingur segir eldsvoðann í kauphöllinni Børsen í miðborg Kaupmannahafnar mikið áfall fyrir Dani enda einn merkasti menningararfur þeirra og kennileiti borgarinnar.
„Þetta er ofboðslegt áfall fyrir Kaupmannahafnarbúa. Þetta er bara eins og ef Alþingishúsið hér brynni.“
Guðjón, sem er vel að sér í byggingarsögu Kaupmannahafnar, segir húsið hafa verið reist af Kristjáni fjórða árið 1620. Kristján hafi haft mikinn metnað fyrir borgarmyndinni og hafi svo sannarlega sett svip sinn á hana.
Kristján hafi verið afar hrifinn af hollenskum endurreisnarstíl og hafi fengið tvo bræður sem voru lærðir í Hollandi til að hanna húsið. Kristján sjálfur hafi aftur á móti átt hugmyndina að turninum fræga sem féll fyrr í morgun.
Turninn eða spíruna mynda í raun fjórir drekar með samfléttaða sporða og segir Guðjón drekaturninn einmitt ætlaðan sem verndartákn fyrir húsið gegn ófriði og eldsvoðum.
„Svo eru þrjár kórónur efst en þær eiga að tákna Danmörku, Noreg og Svíþjóð af því að hann var ennþá með þá hugmynd að þetta ætti bara að vera eitt ríki eins og hafði verið í Kalmarsambandinu.“
Hann segir Børsen upphaflega verið stórmarkað með mörgum litlum verslunum eða eins konar verslunarmiðstöð síns tíma. Síki hafi verið báðum megin við húsið, sem í dag er búið að fylla upp í, svo að hægt var að sigla beint upp að markaðinum til að koma með eða sækja varning.
Børsen hafi verið byggð í þeim tilgangi að efla Kaupmannahöfn og Danmörk sem verslunarmiðstöð, en Guðjón bendir á að einokunarverslunin á Íslandi hafi sömuleiðis verið liður í þeirri stefnu.
Árið 1857 hafi verið ákveðið að breyta húsinu í hefðbundna kauphöll eins og þær sem við þekkjum í dag þar sem verslað er með verðbréf. Þá hafi Børsen byrjað að koma töluvert fyrir í sögu Íslands.
„Íslandskaupmennirnir sem voru að versla á Íslandi, þeir bjuggu allir í Kaupmannahöfn á veturna og þeir hittust daglega þarna á Børsen til að ráða saman ráðum sínum,“ segir Guðjón.
„Þangað komu líka menn frá útlöndum eins og Spáni og Ítalíu og buðu í saltfiskinn sem þeir voru með á boðstólum. Það var meira að segja talað um íslenska hornið á Børsen.“
Segir Guðjón því í raun líka mega segja að þarna hafi einnig verið miðstöð íslenskrar verslunar á 19. öld. Húsið hafi síðan breyst í áranna rás og til að mynda hafi verið byggður Børsen-salurinn þar sem fjöldi verðmætra málverka hafi hangið á veggjum uppi.
Eftir því sem hann best viti hafi þeim flestum verið bjargað en þeirra á meðal sé málverk eftir danska listamanninn Peder Severin Krøyer af kaupmönnunum í Børsen.
Kveðst hann ekki trúa öðru en að Danir hefji að endurreisa húsið enda séu 400 ár á næsta ári frá því að húsið var fyrst tekið í notkun og hafi endurnýjungar á húsinu síðastliðin ár verið gerðar einmitt í tilefni af því afmæli.
„Mér finnst það mjög líklegt að þeir muni fara í það eins og Frakkar fóru í Notre-Dame, þetta er bara þannig hús. Þetta er bara eitt af þekktustu húsum Danmerkur.“