„Þetta er okkar Notre-Dame! Þetta er þjóðargersemi,“ segir hin 45 ára gamla Elisabeth Moltke, sem er búsett í Kaupmannahöfn, þar sem hún horfir á hina 400 ára gömlu kauphöll, Børsen, brenna.
Gríðarmikill eldur braust út í byggingunni í morgun. Eitt helsta kennileiti hennar var 54 metra há drekaturnspíra sem varð eldinum að bráð og féll síðar í eldhafið.
Framkvæmdir stóðu yfir í húsinu sem átti að ljúka í haust þegar fagna átti 400 ára afmæli byggingarinnar.
„Það er mikið af gömlum dönskum málverkum, frummyndum, sem eru geymd þarna. Ég hef komið þarna nokkrum sinnum og þetta er mögnuð bygging og af þeim sökum er ég virkilega sorgmædd,“ segir Moltke enn fremur.
Eldurinn kviknaði um kl. 7.30 að staðartíma, eða kl. 5.30 að íslenskum tíma, í koparþaki hússins. Rúmlega 100 slökkviliðsmenn voru strax sendir á vettvang.
Myndir og myndskeið hafa verið birt af því þegar turnspíran fræga brotnaði og féll á götuna fyrir neðan. Gríðarmikill eldur hefur logað í húsinu og þykkur reykjarmökkur stígur til himins.
Slökkviliðsbílar umkringdu húsið, sem er þakið vinnupöllum vegna þeirra endurbóta sem hafa staðið yfir að undanförnu.
Børsen er aðeins spölkorn frá danska þinghúsinu og Kristjánsborg, þar sem danska ríkisstjórnin hefur sitt aðsetur.
„Þetta er koparþak og það er einfaldlega ómögulegt að komast undir það, og af þeim sökum hefur eldurinn fengið tíma til að stigmagnast,“ segir Jakob Vedsted Andersen, sem stjórnar aðgerðum á vettvangi. Hann segir enn fremur að eldurinn hafi náð að teygja sig niður á neðri hæðir byggingarinnar.
Kristján IV lét reisa Børsen, en framkvæmdir hófust árið 1619 og lauk árið 1640. Þetta er eitt elsta og þekktasta kennileiti Danmerkur.
Inni í byggingunni er að finna gríðarmikið safn listaverka.
„Skelfilegar myndir frá Børsen í morgun. 400 ár af dönskum menningararfi að fuðra upp,“ segir Jakob Engel-Schmidt, menningarmálaráðherra Danmerkur, í færslu sem hann birti á X.
Myndirnar sem hafa verið birtar minna um margt á stórbrunann í Notre-Dame dómkirkunni í París í Frakklandi fyrir tæpum fimm árum, en byggingin skemmdist mikið í eldsvoðanum.
Margir íbúar sem fylgdust með aðgerðum á vettvangi voru grátandi og í miklu uppnámi.
„Ég er orðlaus. Þetta er 400 ára gömul bygging sem hefur staðið af sér aðra eldsvoða sem hafa brennt stóra hluta Kaupmannahafnar,“ segir Carsten Lundberg, sem starfar hjá danska viðskiptaráðinu.
„Þetta er skelfilegur missir,“ sagði hann jafnframt og benti um leið á þau miklu verðmæti sem væri að finna inni í byggingunni. Ómetanleg listaverk.
Engel-Schmidt kveðst hafa vera snortinn af því að sjá starfsfólk, viðbragðsaðila og íbúa taka höndum saman við að bjarga verðmætum.