Gríðarleg úrkoma hefur gengið yfir Sameinuðu arabísku furstadæmin (SAF) og nágrannaríki þess undanfarna daga og hefur t.a.m. orðið mikil röskun á starfssemi alþjóðaflugvallarins í borginni Dúbaí, sem er fjölmennasta borg SAF.
Óveðrið olli miklum usla á þriðjudag þar sem vatn flæddi yfir vegi og hluta flugvallarins.
Alls hafa 20 látist í skyndiflóðum í Óman og einn í SAF.
Eitthvað hefur verið um komuflug í dag en að öðru leyti hefur starfsemi á flugvellinum í Dúbaí legið niðri. Þar er alla jafna mjög mikil umferð alla daga, að því er segir í umfjöllun breska útvarpsins.
Flugvallaryfirvöld segja að ferðaáætlanir ferðamanna hafi raskast verulega og víða séu langar raðir og bið.
Yfirvöld í Dúbaí birtu tilkynningu á samfélagsmiðlinum X þar sem hvetja aðeins þá sem eigi staðfestar bókanir að koma á flugvöllinn.
Paul Griffiths, forstjóri flugvallarins, segir að staðan sé erfið. „Ég veit ekki til þess að nokkur hafi séð annað eins,“ sagði hann.
Miklar umferðarteppur hafa myndast á vegum við völlinn þar sem fólk reynir að komast í flug.
Í gær var yfir 300 flugferðum aflýst og mörg hundruð til viðbótar frestuðust.
Úrkoman sem féll á þriðjudag í SAF er sú mesta í skráðri sögu landsins. Um 259,5 mm féllu þar sem veðurfarið er alla jafna sólríkt og þurrt.
Ríkisfréttastofa landsins segir úrkomuna hafa verið sögulegan viðburð og ekkert hafi komist í hálfkvisti við hann frá því mælingar hófust árið 1949.